Franska leikkonan Brigitte Bardot gagnrýndi leikkonur, sem stigið hafa fram og sakað valdamenn í kvikmyndabransanum um kynferðislega áreitni, harðlega í viðtali við franska tímaritið Paris Match. Bardot sagði leikkonurnar í flestum tilvikum hræsnara.
Fjölmargar konur innan skemmtanabransans, í Hollywood og víðar, hafa síðustu mánuði greint frá kynferðislegri áreitni og ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir. Frásagnirnar eru margar undir merkjum #MeToo-byltingarinnar en Bardot sagði tilfellin flest „fáránleg og óáhugaverð“ og að með því að segja frá áreitni sýndu konurnar af sér hræsni.
„Margar leikkonur daðra við framleiðendur til að hreppa hlutverk. Þegar þær segja svo frá því eftir á segjast þær hafa verið áreittar [...] í raun og veru, frekar en að vera þeim til framdráttar, skaðar þetta þær,“ sagði Bardot.
Þá sagðist Bardot sjálf aldrei hafa verið áreitt kynferðislega í starfi sínu sem leikkona.
„Mér fannst bara fínt þegar mér var sagt að ég væri falleg eða að ég væri með sætan, lítinn rass. Hrós af þessu tagi er fínt.“
Í janúar þurfti starfssystir Bardot, franska leikkonan Catherine Deneuve, að biðjast afsökunar á að hafa skrifað undir opið bréf sem verka átti sem mótvægi við #MeToo-byltinguna í Frakklandi. Í bréfinu voru áhrif byltingarinnar á samfélagið gagnrýnd og „frelsið til að táldraga“ sagt nauðsynlegt.
Bardot, sem þekkt var fyrir fegurð sína og kynþokka, hætti að leika árið 1973 og átti þá 20 ára farsælan feril að baki. Hún er mikill dýraverndunarsinni og er yfirlýstur stuðningsmaður frönsku Þjóðfylkingarinnar, flokks þjóðernissinna sem Marine Le Pen fór fyrir í forsetakosningunum í fyrra. Bardot hefur hlotið fimm dóma í heimalandi sínu fyrir hatursorðræðu í garð múslima.