Erlent

Sam­þykkja að hefja form­legar stjórnar­myndunar­við­ræður

Atli Ísleifsson skrifar
Angela Merkel Þýskalandskanslari er leiðtogi Kristilegra demókrata.
Angela Merkel Þýskalandskanslari er leiðtogi Kristilegra demókrata. Vísir/AFP
Kristilegir demókratar (CDU og CSU) og Jafnaðarmenn (SDP) í Þýskalandi náðu í morgun saman um að flokkarnir hefji formlegar viðræður um myndun meirihlutastjórnar í landinu. Þrír og hálfur mánuður eru nú liðinn frá því Þjóðverjar gengu til kosninga og enn hefur ekki tekist að mynda starfhæfan meirihluta.

Angela Merkel kanslari sem fer fyrir Kristilegum demókrötum (CDU) sagði í gær að komið væri að úrslitastund í málinu.

Fulltrúar flokkanna funduðu fram á morgun og þegar fundi var slitið sögðu einhverjir að enn væri nokkuð í land. Spiegel greinir hins vegar nú frá því að samkomulag sé í höfn um að hefja formlegar viðræður.

Vitað er að flokkarnir séu á öndverðum meiði þegar kemur að ýmsum stórum málum. Sérstaklega skilur að í afstöðu Kristilegra demókrata í Bæjaralandi (CSU) og Jafnaðarmanna í skattamálum og málefnum innflytjenda. Þannig vilja Jafnaðarmenn auðvelda flóttafólki sem fengið hafa hæli að sameinast fjölskyldum sínum á ný. CSU vill hins vegar herða lög um innflytjendur.

SPD hefur lagt mikinn þunga á að lagst verði í umbætur á sjúkratryggingakerfinu og þá vill flokkurinn breyta stefnu stjórnvalda í Evrópumálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×