Erlent

Fylgdarkona segist hafa sannanir um afskipti Rússa í Bandaríkjunum

Kjartan Kjartansson skrifar
Oleg Deripaska með Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Fylgdarkonan segist hafa verið á snekkju Deripaska þegar aðstoðarforsætisráðherra Rússlands var með honum.
Oleg Deripaska með Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Fylgdarkonan segist hafa verið á snekkju Deripaska þegar aðstoðarforsætisráðherra Rússlands var með honum. Vísir/AFP
Hvítrússnesk fylgdarkona sem var handtekin á „kynlífsnámskeiði“ í Taílandi segist eiga margra klukkustunda langar upptökur sem sýni fram á hvernig Rússar reyndu að hafa áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 2016.

Anastasia Vashukevitsj var handtekin í Pattya í Taílandi þar sem hún er grunuð um að hafa unnið án þess að vera með landvistarleyfi. Hún sagði við blaðamenn í fangelsinu þar sem henni er haldið að hún ætti meira en sextán klukkustundir af upptökum af umræðum um forsetakosningarnar. Hún myndi afhenda bandarískum stjórnvöldum þær ef hún fengi pólitískt hæli í Bandaríkjunum.

New York Times segir að Vashukevitsj hafi náin tengsl við Oleg Deripaska, rússneskan álfursta og milljarðamæring sem aftur er náinn Vladimír Pútín, forseta Rússlands. Deripaska er einnig tengdur Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóra Donalds Trump Bandaríkjaforseta.

Manafort hefur verið ákærður fyrir fjölda brota í tengslum við rannsókn á afskiptum Rússa af forsetakosningunum. Hann er sagður hafa boðið Deripaska persónulegar skýrslur um framboðið á sínum tíma. Fyrirtæki Manafort er þá sagt hafa skuldað rússneska auðjöfrinum milljónir dollara.

Ræddi við aðstoðarforsætisráðherrann um Bandaríkin

Það sem er talið renna einhverjum stoðum undir fullyrðingar konunnar er myndband sem Aleksei Navalní, leiðtogi rússnesku stjórnarandstöðunnar, birti á Youtube-síðu sinni í síðasta mánuði. Það byggði að miklu leyti á myndböndum og myndum frá Vashukevitsj.

Hún segist hafa unnið fyrir fyrirsætuskrifstofu þegar hún og fleiri fyrirsætur voru ráðnar til að vera á snekkju Deripaska. Þar tók hún meðal annars myndir af Deripaska með Sergei E. Prikhodko, aðstoðarforsætisráðherra Rússlands.

Í myndbandi Navalní heyrast Deripaska og Prikhodko meðal annars ræða um samskipti Rússlands og Bandaríkjanna. Navalní segir að Vashukevitsj hafi verið ein fjölda vændiskvenna á snekkjunni. Ætlun Deripaska hafi verið að múta Prikhodko.

„Þeir voru að ræða kosningar. Deripaska var með áætlun með kosningarnar,“ segir Vashukevitsj sem vildi ekki gefa fréttamönnum upp frekari upplýsingar.

Bandaríska leyniþjónustan er þess fullviss að Rússar hafi reynt að hafa afskipti af forsetakosningunum árið 2016. Það hafi þeir meðal annars gert með því að brjótast inn og stela tölvupóstum Demókrataflokksins og með áróðursherferð á samfélagsmiðlum.

Robert Mueller, sérstakur rannsakandi bandaríska dómsmálaráðuneytisins, rannsakar nú meðal ananrs hvort að Rússar hafi átt í samráði við framboð Trump um að hafa áhrif á úrslit kosninganna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×