Erlent

Egypskar eyjar endanlega framseldar Sádi-Aröbum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Eyjarnar Tiran og Sanafir eru í mikilvægri siglingaleið.
Eyjarnar Tiran og Sanafir eru í mikilvægri siglingaleið. Vísir/epa
Hæstiréttur Egyptalands hefur staðfest að eyjarnar Tiran og Sanafir séu innan lögsögu Sádi-Arabíu en ekki Egyptalands. Lægra settir dómar landsins höfðu komist að sinni niðurstöðunni hvor.

Árið 2016, á meðan Salman Bin Abdulaziz Al Saud, konungur Sádi-Arabíu, var í opinberri heimsókn í Egyptalandi, var tilkynnt um yfirfærsluna á landsvæðinu. Við skoðun á landhelgis- og lögsögumálum ríkjanna kom í ljós að eyjarnar tvær ættu í raun að tilheyra Sádi-Aröbum. Samtímis var tilkynnt að Sádi-Arabar hygðust fjárfesta fyrir milljarða dollara í Egyptalandi og að Egyptum stæði til boða lán á hagstæðum kjörum.

Andstæðingar gjörningsins töldu að samkomulagið væri í andstöðu við stjórnarskrá landsins en þar stendur meðal annars að óheimilt sé með öllu að selja egypskt landsvæði til annarra ríkja. Egypska þingið ræddi málið síðasta sumar og staðfesti samkomulagið. Hæstiréttur landsins taldi að eins og málum væri háttað þá stæðist málið stjórnarskrá og það væri þingsins að veita því samþykki eða synjun.

Eyjarnar tvær, sem eru óbyggðar, eru norðarlega í Rauðahafi við mynni Aqaba-flóa. Þær liggja í siglingaleið sem er afar mikilvæg bæði Jórdönum og Ísraelum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×