Borgarlína í fjármálaáætlun ríkisins
Í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að samið verði um framgang borgarlínu milli ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu á þessu ári. Í áætluninni segir skýrt að ríkið muni styðja borgarlínu og í Morgunblaðsgrein tekur forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir einnig af öll tvímæli í því efni. Þetta er fagnaðarefni. Á grundvelli fjármálaáætlunar og yfirlýsinga forsætisráðherra hefur stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu falið fulltrúum Reykjavíkur, Kópavogs og Garðabæjar að undirbúa komandi samningagerð fyrir hönd sveitarfélaganna.
Skýr framtíðarsýn
Hundruð borga um allan heim, af öllum stærðum, gerðum og loftslagi notast við hraðvagnakerfi með góðum árangri. Þar er víða að nást góður árangur að fjölga notendum almenningssamganga og það viljum við líka gera. Borgarlínan er hluti af framtíðarsýn um fjölbreyttari ferðamáta og meira val í samgöngumálum. Borgarlínan á að verða góður, öruggur valkostur sem veitir tíða þjónustu og keyrir í sérrými. Borgarlínan mun því ekki verða fyrir töfum á annatíma þar sem hún nýtur forgangs í umferðinni. Allir munu hins vegar njóta góðs af því. Eftir því sem notendum borgarlínu fjölgar verður meira rými á götunum fyrir bíla, auk þess sem borgarlínan er afar mikilvægt tæki til að bæta loftgæði, bæta hljóðvist og draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.Höfundur er borgarstjóri Reykjavíkur