Erlent

Rannsakendur fá ekki aðgang að Douma

Samúel Karl Ólason skrifar
Hermenn á gangi í Douma.
Hermenn á gangi í Douma. Vísir/AFP
Yfirmaður Efnavopnastofnunarinnar (OPCW) segir rannsakendur stofnunarinnar ekki fá aðgang að Douma í Sýrlandi. Yfirvöld Sýrlands og bandamenn þeirra Rússar, meina rannsakendunum aðgang að bænum. Þetta kom fram á neyðarfundi sem kallað var til innan OPCW í Haag í morgun.

Minnst 40 og allt að 75 manns eru sagðir hafa fallið í efnavopnaárás stjórnarhers Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, í Douma þann 7. apríl og um 500 manns leituðu sér aðhlynningar samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni. Í kjölfarið skutu Bandaríkin, Frakkland og Bretland 105 flugskeytum á Sýrland aðfaranótt sunnudagsins. Gerðar voru árásir á þrjú skotmörk sem sögð eru hafa tengst efnavopnaáætlun Sýrlands og var markmiðið að koma í veg fyrir frekari notkun efnavopna í Sýrlandi og víðar.

Bandaríkjastjórn segist hafa upplýsingar um að sarín- og klórgas hafi verið notað í efnavopnaárás í bænum Douma sem hún fullyrðir að ríkisstjórn Bashars al-Assad hafi staðið að. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hefur sömuleiðis sagst vera fullviss um að stjórnarherinn hafi gert árásina.

Sendinefnd Bretlands sagði frá því á Twitter í morgun að rannsakendum hefði verið meinaður aðgangur að Douma. Í samtali við Reuters heldur aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands því fram að töfin sé vegna árása Bandaríkjanna. Í samtali við AP sagði sami maður, Sergei Ryabkov, að rannsakendur þyrftu tilskilin leyfi frá Sameinuðu þjóðunum til að fá að fara inn í Douma.

Í yfirlýsingu Bretlands á fundi OPCW í morgun segir að ríkisstjórn landsins sé sömuleiðis viss um sekt Assad. Bretar hafi mikið magn upplýsinga um að stjórnarherinn hafi gert árásina og að það hafi þeir margsinnis gert áður.



OPCW hafi borist tilkynningar um rúmlega 390 atvik þar sem efnavopnum eiga að hafa verið notuð frá 2014. Þá hafi rannsakendur OPCW og Sameinuðu þjóðanna staðfest að stjórnarher Sýrlands hafi fjórum sinnum gert efnavopnaárásir með klór- og saríngasi á tímabilinu 2014 til 2017 og hafi ríkisstjórn Sýrlands margsinnis neitað að starfa með rannsakendum OPCW.

Frá byrjun árs 2017 hafi Rússar beitt neitunarvaldi sínu sex sinnum í Öryggisráðinu gegn ályktunum sem snúa að efnavopnum í Sýrlandi. Þar á meðal í síðustu viku þegar ráðið vildi skipa sjálfstæða rannsakendur vegna árásarinnar í Douma.

Peter Wilson, fulltrúi Breta innan OPCW, sagði einnig að Rússar hefðu haldið því fram að árásin hefði verið sviðsett og jafnvel með aðstoð Bretlands. Slíkar ásakanir og rangfærslur væru ekki nýjar af nálinni. Rússar hefðu einnig haldið því fram að árásin á Khan Sheikhoun hefði aldrei átt sér stað og þegar OPCW sannaði að saríni hefði verið beitt þar hefðu Rússar beitt valdi sýnu til að stöðva rannsóknir OPCW í Sýrlandi.

„Enn og aftur eru Rússar að dreifa samsæriskenningum og rangfærslum sem ætlað er að grafa undan rannsóknum OPCW,“ sagði Wilson.

Til marks um þessar rangfærslur má benda á umfjöllun rússnesku sjónvarpsstöðvarinnar Vesti, sem er í eigu rússneska ríkisins, þann 9. apríl, þar sem birtar voru meintar sannanir um að Hvítu hjálmarnir svokölluðu fölsuðu ódæði stjórnarhersins.

Hið rétta er að myndefnið var fengið af Facebook-síðu sýrlenskrar áróðursmyndar sem ber nafnið „Uppreisnarmaðurinn“. Sú mynd fjallar, samkvæmt ríkissjónvarpi Sýrlands, um blaðamann sem ferðast ólöglega til Sýrlands til að taka myndir og myndbönd af stríðinu í Sýrlandi og öðlast verðlaun og frægð. Eftir að honum mistekst að ná slíkum myndum gengur hann til liðs við hryðjuverkamenn og hjálpar þeim að falsa efnavopnaárás og gera alþjóðamál úr því.

Hafa áhyggjur af vettvangi árásarinnar

Kenneth Ward, fulltrúi Bandaríkjanna innan OPCW, sagði á fundinum í dag að Rússar hefðu farið á staðinn þar sem árásin á að hafa verið gerð. Það var gert skömmu eftir hina meintu efnavopnaárás þar sem uppreisnarmennirnir sem héldu Douma samþykktu að yfirgefa svæðið í kjölfarið. Sagðist Ward hafa áhyggjur af því að verið væri að spilla vettvanginum og grafa undan rannsókninni.

Fyrr á fundinum hafði fulltrúi Rússlands sagt að þeir myndu ekki standa í vegi rannsakenda og sakaði hann Bandaríkin um að reyna að grafa undan trúverðugleika rannsóknarinnar. 


Tengdar fréttir

Sarín- og klórgas sagt notað í Douma

Loftárásir Bandaríkjanna, Breta og Frakka eru sagðar hafa náð markmiðum sínum um að laska efnavopnagetu sýrlenskra stjórnvalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×