Erlent

Bandaríkjaforseti fer af hjörunum vegna bókar Comey

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump fór mikinn gegn Comey á Twitter í morgun. Comey er líklega lykilvitni í Rússarannsókninni um hvort Trump hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar.
Trump fór mikinn gegn Comey á Twitter í morgun. Comey er líklega lykilvitni í Rússarannsókninni um hvort Trump hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar. Vísir/AFP
Endurminningar James Comey, fyrrverandi forstjóra alríkislögreglunnar FBI, virðast hafa velgt Donald Trump Bandaríkjaforseta undir uggum í morgun. Trump hefur farið hamförum gegn Comey á Twitter í morgun og meðal annars kallað hann „óþokka“, „útsmoginn“ og „ekki gáfaðan“.

Bók Comey verður gefin út á þriðjudag en bandarískir fjölmiðlar hafa þegar haft hluta upp úr henni þar sem fyrrverandi forstjórinn fer ekki fögrum orðum um forsetann. Trump rak Comey í maí í fyrra vegna rannsóknar FBI á meintu samráði forsetaframboðs hans við Rússa. Comey kallar Trump meðal annars siðlausan í bókinni.

Trump tísti ekki sjaldnar en fimm sinnum um Comey í morgun þar sem hann úthúðar honum á oft torskilinn hátt.

„Ótrúlegt, James Comey segir að skoðanakannanir, þar sem Spillta Hillary var með forystu hafi haft á áhrif á meðferð (heimskulega!) á Clinton-tölvupóstarannsókninni. Með öðrum orðum, hann tók ákvarðanir sem byggðust á þeirri staðreynd að hann hélt að hún myndi vinna og hann vildi vinnu. Óþokki!“ tísti Trump.

Virtist hann vísa til þess að Comey gefur í skyn í bókinni að hann hafi talið líklegt að Clinton yrði kjörin forseti þegar hann ákvað að gera opinbert að FBI hefði opnað rannsókn á tölvupóstum hennar þegar hún var utanríkisráðherra aðeins rúmri viku fyrir kjördag árið 2016. Hann hafi óttast hvernig það hefði litið út ef hún ynni og FBI hefði haldið því leyndu að rannsókninn hefði verið opnuð aftur.

Trump endurtekur í öðru tísti fullyrðingar um að Comey hafi lekið trúnaðarupplýsingum og logið að þingnefnd sem virðast ekki byggðar á neinum rökum sem fram hafa komið og vill að Comey verði stungið í fangelsi fyrir. Þá stiklar forsetinn á stóru í málum sem repúblikanar hafa gagnrýnt Comey, Lorettu Lynch, dómsmálaráðherra Baracks Obama, og Bill Clinton, fyrrverandi forseta, fyrir.

Forsetinn var þó hvergi nærri hættur þó að hann hafi tekið sér hlé á tístunum um Comey til að verja ummæli sín um loftárásirnar í Sýrlandi. Trump tísti í gær „Markmiðinu náð!“ en það voru sömu orð og urðu alræmd eftir að George W. Bush, fyrrverandi forseti, notaði þau um innrásina í Írak.

Þrætti Trump fyrir að hafa nokkru sinni krafið Comey um hollustueið eins og forstjórinn fyrrverandi bar meðal annars um fyrir þingnefnd. Bar Trump fyrir sig eins og hann hefur gjarnan gert með aðra gagnrýni að hann hafi lítið eða ekkert þekkt Comey.

„Ég bað Comey aldrei um persónulega hollustu hans. Ég þekkti varla þennan gaur. Bara enn önnur af mörgum lygum hans. „Minnisblöðin“ hans eru fyrir eiginhagsmuni og FÖLSUÐ!“ tísti Trump og vísaði til minnisblaða sem Comey segist hafa haldið um samskipti þeirra í fyrra af ótta við að forsetinn gæti logið um þau síðar.

Lokaskotið á Comey var eitt það harðorðasta þar sem forsetinn efaðist um gáfnafar hans.

„Útsmogni James Comey, maður sem kemur alltaf illa út og út úr kú (hann er ekki mjög gáfaður!) fer í sögubækurnar sem VERSTI FBI forstjóri sögunnar, með yfirburðum!“


Tengdar fréttir

Repúblikanar búa sig undir árásir á Comey

Bók fyrrverandi forstjóra FBI sem Trump Bandaríkjaforseti rak er væntanleg á þriðjudag. Repúblikanar eru tilbúnir að heyja fjölmiðlastríð gegn honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×