Erlent

Lögmaður Trump var ráðinn af fyrirtæki rússnesks auðjöfurs

Samúel Karl Ólason skrifar
Michael Cohen hefur verið persónulegur lögmaður Donald Trump til langs tíma.
Michael Cohen hefur verið persónulegur lögmaður Donald Trump til langs tíma. Vísir/AP
Michael Cohen, lögmaður Donald Trump, var í fyrra ráðinn af fyrirtækinu Columbus Nova sem tengist rússneska auðjöfrinum Viktor Vekselberg. Auðjöfurinn var viðstaddur embættistöku Trump en var svo beittur viðskiptaþvingunum af yfirvöldum Bandaríkjanna í síðasta mánuði, ásamt öðrum auðjöfrum sem tengjast Vladimir Putin.

Columbus Nova sendi út tilkynningu eftir að Michael Avenatti, lögmaður klámmyndaleikkonunnar Stormy Daniels, birti yfirlit yfir greiðsluna á Twitter í gærkvöldi.

Avenatti segir að Cohen hafi fengið hálfa milljón dala frá auðjöfrinum og hafi upphæðin verið greidd til félagsins Essential Consultants. Cohen stofnaði félagið í október 2016 og notaði það til þess að greiða Daniels 130 þúsund dali fyrir þögn hennar um meint framhjáhald hennar og Donald Trump árið 2005.

Avenatti segir greiðsluna hafa borist Cohen á milli janúar og ágúst í fyrra. CNN hefur heimildir fyrir því að rannsakendur Robert Mueller, sérstaks saksóknara Dómsmálaráðuneytisins, hafi spurt Cohen og Vekselberg út í greiðslurnar. Hann var einnig spurður út í 300 þúsunda dala fjárveitingu sem yfirmaður bandarísks fyrirtækis hans veitti framboði Trump.



Washington Post hefur heimildir fyrir því að rannsakendur Mueller skoði hvort að embættistaka Trump hafi að hluta til verið fjármögnuð með peningum erlendis frá, sem er bannað samkvæmt lögum Bandaríkjanna.

Í kjölfar yfirlýsingar Avenatti var greiðslan staðfest af fjölmiðlum í Bandaríkjunum. Í kjölfarið sendi Columbus Nova út tilkynningu um að Cohen hefði fengið greitt vegna ráðgjafastarfa hans fyrir fyrirtækið í sambandi við fasteignaviðskipti og að Vekselberg sjálfur hefði ekki komið að málinu með nokkrum hætti.

Bandaríska fyrirtækið AT&T greiddi Cohen einnig 50 þúsund dali á mánuði í fjóra mánuði, skömmu áður en Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna reyndi að koma í veg fyrir samruna AT&T og Time Warner. Talsmaður AT&T segir að Cohen hafi verið ráðinn til að veita fyrirtækinu „innsýn“ í ríkisstjórn Trump. Greiðslurnar runnu einnig inn í Essential Consultants.

Avenatti heldur því einnig fram að fyrirtækin Novartis Investments og Korea Aerospace Industries hafi greitt Cohen háar fjárhæðir í gegnum Essential Consultants. Bæði fyrirtækin eiga í umfangsmiklum viðskiptum við stjórnvöld Bandaríkjanna.

Skömmu eftir að Cohen fékk síðustu greiðsluna frá Novartis fundaði Trump með nýjum forstjóra fyrirtækisins í Davos í Sviss. Í yfirlýsingu til Washington Post segir að greiðslurnar til Cohen hafi ekki tengst fundinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×