Skoðun

Trump er víða

Sirrý Hallgrímsdóttir skrifar
Donald Trump er sennilega flinkasti popúlisti Vesturlanda. Þrátt fyrir harðar árásir fjölmiðla virðist engu skipta hversu mikið rugl kemur frá honum, hversu mörg hneykslismál rata upp á yfirborðið, alltaf flýtur Trump áfram. Eftir því sem hann lætur meira rugl frá sér fara, því ónæmari virðist hann verða fyrir gagnrýni.

Mér varð hugsað til þessa þegar ég heyrði formann VR í fjölmiðlum 1. maí. Þar fór hann mikinn og sagði að verkalýðshreyfingin myndi fara í aðgerðir sem ekki hefðu sést hér á síðustu áratugum. Eitt af því var að beita verkfallsvopninu til að breyta vöxtum Seðlabankans, afnema verðtryggingu og ýmislegt annað smálegt. Slíkar aðgerðir eru ólöglegar með öllu og reyndar fráleit hugmynd að breyta vöxtum með verkföllum. En hið merkilega er að engum fjölmiðli sem Ragnar Ingólfsson talaði við hugkvæmdist að spyrja hann gagnrýninna spurninga, ólíkt því sem við sjáum í Bandaríkjunum í samskiptum fjölmiðla þar og Trumps.

Þessi tegund af Trumpisma sem Ragnar Ingólfsson hefur tileinkað sér svo listilega er hættuleg fyrir allt launafólk á Íslandi, sérstaklega þá sem búa við lægstu launin. Við búum nefnilega svo vel að eiga nýlega sögu kjaradeilna hér á landi og hverjir það voru sem fóru verst út úr þeim, og það var ekki ríka fólkið.

Fjölmiðlar hafa hingað til verið duglegir að útvarpa, sjónvarpa og prenta það sem Ragnar segir. Hvernig væri nú að taka áhættuna og byrja að spyrja gagnrýninna spurninga? Verkalýðshreyfingin hefur samkvæmt lögum gríðarlegt vald í samfélaginu, því valdi á að fylgja sama ábyrgð og sama eftirlit eins og á við um aðrar valdastofnanir þjóðfélagsins.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×