„Við fengum aukið fjármagn fyrir rannsóknir tengdar plastmengun. Rannsóknir í nafni OSPAR á plasti í mögum fýla í Norðursjó hafa verið stundaðar í lengri tíma. Hins vegar er þetta í fyrsta sinn á Íslandi,“ segir Katrín Sóley Bjarnadóttir, sérfræðingur í teymi hafs og vatns hjá Umhverfisstofnun. Rannsóknir hafa sýnt að fýlar gleypa mikið af plasti og eru þeir því kjörið rannsóknarefni til þess að fylgjast með og vakta plastmengun í sjó.

Katrín Sóley segir að það taki þó einhvern tíma að koma ferlinu almennilega í gang. „Hluti af samningnum við NNA er að virkja sjómenn til þess að taka þátt í að safna fýlum sem festast í netum og línum og koma þeim til Náttúrustofu Norðausturlands.“
Þorkell safnar nú sýnum og í haust fer krufning og úrvinnsla fram. Enn kemur ekki inn nógu mikið af fýl sem finnst ýmist dauður á ströndum eða festist í veiðarfærum fiskiskipa. „Við reynum að nota þá söfnunaraðferð hér á Íslandi. Við eigum síðan von á niðurstöðum í lok þessa árs, en svo er ætlunin að halda þessari vöktun áfram í lengri tíma. Grunnurinn fyrir öllum náttúruverndaraðgerðum er að hafa gögn um hvert raunverulegt ástand er.“