Nefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings um njósnamál birti fyrir helgi gögn sem fengin voru frá Facebook sem sýndu meðal annars allar auglýsingarnar 3.517, hvaða samfélagshópum þær voru sniðnar að, hve mikið þær kostuðu og hve oft þær voru skoðaðar.
Blaðamenn USA Today fóru yfir hverja einustu auglýsingu og flokkuðu þær. Niðurstöður þeirra voru að um 1.950 auglýsingar sneru að kynþáttaólgu og voru þær skoðaðar alls 25 milljón sinnum. Minnst fjórðungur umræddra auglýsinga fjallaði um glæpi og löggæslu, oft með tilvísunum í áðurnefnda kynþáttaólgu.
Oft á tíðum keyptu starfsmenn „Tröllaverksmiðjunnar“ tvær auglýsingar um sömu málefnin. Þær voru svo sniðnar að sitt hvorum fylkingum málefna til að auka deilur þar á milli. Birtingu slíkra auglýsinga var haldið áfram eftir að Donald Trump var kosinn forseti.
Einungis um hundrað auglýsingar minntust með berum orðum á stuðning við framboð Donald Trump eða andstöðu við Hillary Clinton.
Sjá einnig: Upplýsingahernaður háður úr „Tröllaverksmiðju“ í Pétursborg
Vinsælasta auglýsing IRA sneri að stuðningi við lögregluþjóna í Bandaríkjunum. Hana sáu 1,3 milljónir manna og smelltu 73 þúsund manns á hana. IRA greiddi 1.785 dali fyrir hana og var hún sniðin að 20 til 65 ára gömlu fólki sem hafði þegar líkað við stuðningssíður lögregluþjóna.
Næsta dag keypti Tröllaverksmiðjan auglýsingu sem sýndi tvo þeldökka bræður í handjárnum með texta um að þeir hefðu verið handteknir fyrir að vera svartir. Sú auglýsing var sniðin að fólki sem hafði líkað við síður um martin Luther King Jr., Malcom X og sögu þeldökkra.