Skoðun

Söngvakeppir

Guðmundur Brynjólfsson skrifar
Þegar til stóð að senda mig í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fyrir nokkrum árum strandaði það á því lítilræði að ekki fannst mátulegur kjóll. Það var samdóma álit þeirra sem að komu, að ég væri nógu feitur; með sannkallaða söngvakeppi. Að lagleysi mitt væri hreint afbragð, að sjónleysið á hægra auganu og öll sú sjúkrasaga myndi hala inn mörg stig, hættan á að ég dytti í það og forklúðraði þátttöku landsins væri spennandi, og tannsteinninn sem myndi sjást svo vel í nærmynd gæti bent til banvæns sjúkdóms í vélinda. Sjálfur átti ég heimasmíðuð sólgleraugu sem ég ætlaði að vera með, og dagsdaglega hef ég hring á hverjum fingri svo ekki var það vandamál. Lagið var tilbúið: Blanda af Belgía ´73, Danmörk ´67 og Ísrael ´89 – með millikafla úr Söknuði eftir Jóa Helga. Textinn: Lög um vexti og verðtryggingu 38/2001 – sunginn á 15 tungumálum. Fólk er alltaf svag fyrir því sem er framandi.

En ég fór aldrei. Það gerði kjóllinn. Eða, mér var sagt það. Ég held að það hafi verið fyrirsláttur – hér hafi verið á ferðinni bévítans klíka. Fólk vildi halda forkeppni. Mér fannst það óþarfi, enda hafði Heimir Hallgríms þá þegar valið mig – þrátt fyrir tannsteininn. Hann velur jú alltaf rétt. Segja strákarnir.

Ég man ekki hver fór þetta árið – í staðinn fyrir mig, eða svo gott sem. En þau fóru með annað lag – og ömurlegan texta. Það var reynt að búa til einhverja stemmingu áður en þau fóru út. Það var allt misheppnað – fólk vissi líka í hjarta sínu að ég var sá rétti, en þorði auðvitað ekkert að nefna það. Hér er svoddan þöggun – og fordómar.

En, eftir á að hyggja: Hvar hefði svo sem átt að halda keppnina árið eftir?




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×