Innlent

Ráðherrar Norðurlandanna sameinast gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldi

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Lilja Alfreðsdóttir
Lilja Alfreðsdóttir Vísir
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, undirritaði í gær sameiginlega yfirlýsingu um aðgerðir vegna #metoo-byltingarinnar, ásamt öðrum menningarmálaráðherrum Norðurlanda. Lilja er stödd á fundi þeirra í Malmö í Svíþjóð og greindi meðal annars frá aðgerðum íslenskra stjórnvalda í kjölfar frásagna kvenna af kynferðislegri áreitni og ofbeldi á fundinum.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að norræna upplýsingaveitan um kynjafræði hafi kortlagt lagaumhverfi kynferðislegrar áreitni og vernd gegn henni í atvinnulífinu. Í grunninn sé viðfangsefnið einfalt; kynferðisleg áreitni sé ólögleg og hvarvetna á Norðurlöndum hvíli sú skylda á vinnuveitendum að koma í veg fyrir og bregðast við kynferðislegri áreitni. Löggjöf Norðurlanda sé skýr en ljóst sé að eftirfylgni með lögunum hafi víða verið ábótavant.

„Norrænu menningarmálaráðherrarnir eru ákveðnir í að stuðla að breytingum í þessum efnum. Jafnrétti er ein af forsendunum þeirrar velgengni sem Norðurlöndin njóta og við í norrænu ráðherranefndinni um menningarmál tökum mið af jafnréttissjónarmiðum í öllu okkar starfi. Ég er þeirrar skoðunar að við getum dregið lærdóm hvert af öðru og yfirlýsingin er liður í að auka samstarf á þessu sviði,“ segir Lilja.

Á fundinum samþykktu ráðherrarnir að fela skrifstofu ráðherranefndarinnar að undirbúa áframhaldandi aðgerðir sem feli meðal annars í sér vernd gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldi og aukið öryggi á starfsvettvangi menningar, íþrótta og fjölmiðla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×