Skoðun

Húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur

Dagur B. Eggertsson skrifar
Yfirstandi kjörtímabil hefur verið mesta uppbyggingarskeið í sögu borgarinnar. Aldrei áður hafa verið jafnmargar íbúðir í byggingu í Reykjavík og einmitt nú. Samfélagið er að gjalda það dýru verði að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lagði niður verkamannabústaðakerfið. Fyrir vikið eru fjölmargir sem eiga erfitt með að koma sér öruggu þaki yfir höfuðið.

Til að mæta þessum vanda hefur verið leitað fyrirmynda á Norðurlöndum. Áhersla meirihluta borgarstjórnar hefur verið á fjölgun félagslegra leiguíbúða og uppbyggingu á vegum húsnæðisfélaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni. Þessi félög eru á vegum stúdenta, eldri borgara, verkalýðshreyfingarinnar og fleiri uppbyggingarfélaga sem byggja nú íbúðir um alla borg.

Það er lykilatriði til að húsnæðismarkaðurinn verði heilbrigðari. Til viðbótar byggja Félagsbústaðir sérstök búsetuúrræði fyrir fatlað fólk. Fyrir síðustu kosningar var markmiðið sett á að yfir 2.500 leigu- og búseturéttaríbúðir færu af stað í Reykjavík á fimm árum. Þær verða yfir 3.000 og er það sérstakt fagnaðarefni. Ekki veitir af.

Húsnæði um alla borg

Uppbygging öruggari leigumarkaðar heldur áfram á næsta kjörtímabili. Til viðbótar er nauðsynlegt að auka möguleika ungs fólks og fyrstu kaupenda til að eignast hagkvæmt húsnæði.

Til að slík verkefni verði að veruleika hefur borgin tekið frá lóðir fyrir slíkar íbúðir í Skerjafirði, á Veðurstofuhæð, á lóð Stýrimannaskólans, í Bryggjuhverfinu í Grafarvogi, Gufunesi og í Úlfarsárdal. Í fyrsta áfanga verða þetta 500 íbúðir sem munu standa ungu fólki og fyrstu kaupendum til boða.

Sjötíu hugmyndir bárust í hugmyndaleit að uppbyggingarverkefnum fyrir þennan hóp í vetur og næsta skref er að fá beinar tillögur og tilboð frá áhugasömum uppbyggingaraðilum. Við val á samstarfsaðilum mun borgin m.a. horfa til þess hve hratt viðkomandi getur skilað húsnæðinu og á hvaða kjörum. Þetta er enn eitt verkefnið sem gerir húsnæðismarkaðinn í Reykjavík fjölbreyttari og heilbrigðari.






Skoðun

Sjá meira


×