Fótbolti

Maggi Gylfa fór fyrir rándýrum sextett í hjólatúr

Kolbeinn Tumi Daðason í Kabardinka skrifar
Birkir Bjarnason, Hólmar Örn Eyjólfsson, Birkir Már Sævarsson, Magnús Gylfason, Hannes Þór Halldórsson og Hörður Björgvin Magnússon.
Birkir Bjarnason, Hólmar Örn Eyjólfsson, Birkir Már Sævarsson, Magnús Gylfason, Hannes Þór Halldórsson og Hörður Björgvin Magnússon. Vísir/Vilhelm
Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari ákvað að gefa leikmönnum sínum frí frá æfingum í dag eftir stífar æfingar dagana þrjá á undan. Leikmenn hafa hrósað æfingasvæðinu mikið og þar stendur upp úr grasvöllurinn sem þeir segja frábæran. 

Hitinn er mikill hér í Kabardinka, nálægt 30 stigum á hverjum degi og steikjandi sól. Aðstæður sem fæstir leikmenn Íslands eiga að venjast. Þeir nýttu frídaginn og fóru margir hverjir í hjólatúr.

Magnús Gylfason, formaður landsliðsnefndar og sérfræðingur í að finna sér eitthvað að gera í frítíma, fór fyrir einum hópnum sem varð á vegi ljósmyndara Vísis. Þar voru nafnarnir Birkir Már Sævarsson og Bjarnason, Hannes Þór Halldórsson, Hólmar Örn Eyjólfsson og Hörður Björgvin Magnússon. Rándýr sextett.

Strákarnir æfa næst í fyrramálið áður en farið verður upp í flugvél og flogið á vit fyrsta leiksins í höfuðborginni Moskvu. Þar bíður sama bongóblíðan þótt hitinn í augnablikinu sé nær 20 stigum en 30. Þar mæta Íslendingar tvöföldum heimsmeisturum Argentínu á laugardaginn, í leik sem fyrir fram er talinn einn sá mest spennandi í mótinu.

Að neðan má sjá skemmtilegar myndir frá Kabardink, bækistöð íslenska landsliðsins við Svartahaf. Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Vísis, tók myndirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×