Erlent

Banvæn sprenging á fundi nýs forsætisráðherra Eþíópíu

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá útifundinum á Meskel-torgi áður en sprengjan sprakk.
Frá útifundinum á Meskel-torgi áður en sprengjan sprakk. Vísir/Getty
Abiy Ahmed, nýkjörinn forsætisráðherra Eþíópíu, segir að nokkrir hafi látið lífið í sprengingu á útifundi hans á torgi í höfuðborginni Addis Ababa í dag. Talið er að handsprengju hafi verið kastað inn í mannfjöldann.

Sprengjan sprakk nokkrum mínútum eftir að Abiy lauk máli sínu á baráttufundinum sem haldinn var á Meskel-torgi, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Abiy tók við völdum í apríl og hefur síðan ráðist í ýmis konar umbætur og slakað á ritskoðun stjórnvalda.

Hann vakti einnig furðu margra landa sinna þegar hann lýsti því yfir fyrr í þessum mánuði að hann væri reiðubúinn að fullgilda friðarsamning við Erítreumenn sem skrifað var undir árið 2000. Samningnum var ætlað að benda enda á tveggja ára stríð landanna tveggja. Spenna hefur ríkt á milli ríkjanna með tilheyrandi hernaðaruppbyggingu.

Abiy er fyrsti leiðtogi Eþíópíu sem kemur úr röðum Oromo-þjóðflokksins. Oromo-fólk hefur mótmælt ríkisstjórn landsins undanfarin þrjú ár og hafa hundruð manna fallið, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Það kvartar undan pólitískri, efnahagslegri og menningarlegri útskúfun þrátt fyrir að það sé fjölmennasta þjóðarbrot landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×