Um 175 nemendur innrituðust í hjúkrunarfræði við Hí en aðeins 120 komast að í nám við skólann sökum fjöldatakmarkana. Því getur HÍ tekið tvo af hverjum þremur sem vilja komast að.
Á hinn bóginn sóttu rúmlega 300 nemendur um að komast í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri. Háskólinn nyrðra hefur hins vegar aðeins bolmagn til að taka við 55 þeirra þrátt fyrir mun meiri ásókn í námið á Akureyri en í Reykjavík.

„Á vettvangi ráðuneytisins er verið að skoða með hvaða leiðum er hægt að mæta aukinni ásókn í námið og vænti ég að við getum greint frá niðurstöðum þess mjög fljótlega.“
Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA, segir mikilvægt að vinna að langtíma stefnumótun um framtíð skólans og hvernig megi fjölga nemendum og starfsfólki því aðsóknin sé mjög góð og skólinn sæki í sig veðrið.
„Við höfum bent ráðuneytinu á lausnir við ákveðnum aðkallandi verkefnum sem við teljum mikilvægt að farið verði í. Þeim lausnum var vel tekið innan ráðuneytisins og er vinna hafin við að skoða tillögurnar,“ segir Eyjólfur.
„Það er mikilvægt að tjalda ekki til einnar nætur heldur vinna að framtíðarlausnum. Það væri það skynsamlegasta í stöðunni.“

„Við Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra höfum rætt þetta og hyggjumst vinna að því í sameiningu að þessi mikilvægu kerfi okkar tali sem best saman. Menntakerfið þarf að eiga í góðu samtali við atvinnulífið, og samfélagið allt. Þannig stuðlum við best að uppbyggingu þess til framtíðar.“
Á fimmta hundrað einstaklingar sækja um nám í hjúkrunarfræðum við íslenska háskóla en aðeins 175 komast að á hverju ári. Á sama tíma hafa stjórnendur heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsa ítrekað gert grein fyrir mönnunarvanda í íslensku heilbrigðiskerfi sem snýr aðallega að skorti á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum. Komið hefur fram í máli Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítala, að þessi mönnunarvandi sé svipaður þeim vanda sem heilbrigðiskerfi annarra Vesturlanda eru að kljást við í dag.