Erlent

Facebook lokar reikningum í aðdraganda þingkosninga í Bandaríkjunum

Kjartan Kjartansson skrifar
Facebook hefur verið sakað um að taka gervireikninga og síður ekki nógu föstum tökum.
Facebook hefur verið sakað um að taka gervireikninga og síður ekki nógu föstum tökum. Vísir/AP
Forsvarsmenn samfélagsmiðlarisans Facebook hafa lokað 32 reikningum og síðum sem þeir telja að hafi verið stofnaðar gagngert til þess að hafa áhrif á stjórnmálaumræðu í Bandaríkjunum. Rannsókn fyrirtækisins er sögð skammt á veg komin og ekki liggi fyrir hver standi að baki herferðinni sem talin er háþróuð.

Reikningarnir og síðurnar voru bæði á Facebook og myndasíðunni Instagram sem Facebook á. Í yfirlýsingu Facebook voru aðgerðirnar ekki tengdir beint við þingkosningarnar vestanhafs en þær fara fram í nóvember.

Að sögn AP-fréttastofunnar er talið mögulegt að reikningarnir tengist Rússum. Einhverjir þeirra virðist tengjast reikningum Internet Research Agency, rússnesks fyrirtækis sem var notað til þess að heyja áróðsstríð á samfélagsmiðlum fyrir forsetakosningarnar árið 2016 og var lokað í kjölfar þeirra.

Samkvæmt upplýsingum Facebook fylgdu 290.000 notendur að minnsta kosti einni síðunni sem nú hefur verið lokað. Alls hafi reikningarnir og síðurnar á Facebook búið til um 9.500 færslur. Reikningarnir keyptu um 150 auglýsingar á Facebook og Instagram.

Stofnendur gervireikniganna og síðnanna virðast hafa lagt meira á sig til að fela spor sín en Rússarnir sem reyndu að hafa áhrif á forsetakosningarnar árið 2016. Þannig hafi þeir reynt að fela staðsetningu sína með svokölluðu sýndarneti (VPN) og notað milliliði til þess að kaupa auglýsingar fyrir sig, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Facebook hefur legið undir gagnrýni fyrir að hafa ekki tekið nógu alvarlega gervireikninga og síður sem notaðar voru til þess að hafa áhrif á kosningar í Bandaríkjunum og víðar. Bandaríska leyniþjónustan hefur komist að þeirri niðurstöðu að Rússar hafi reynt að hafa áhrif á forsetakosningarnar fyrir tveimur árum til þess að hjálpa Donald Trump að sigra. Hún hefur jafnframt varað við því að Rússar ætli sér að leika sama leik fyrir þingkosningarnar í haust.

Hópur Rússa sem tók þátt í áróðursherferð á samfélagsmiðlum hefur verið ákærður í tengslum við rannsókn Roberts Mueller, sérstaks rannsakanda bandaríska dómsmálaráðuneytisins, á tilraunum Rússa til að hafa áhrif á kosningarnar og meintu samráði framboðs Trump við þá.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×