„Þetta er næststærsta hlaup sem komið hefur úr Skaftárkötlum,“ segir Gunnar Sigurðsson, hópstjóri vatnamælikerfa hjá Veðurstofu Íslands.
Skaftárhlaup sem hófst á föstudag er nú í rénun. Þjóðvegi 1 var lokað á sunnudagsmorgun eftir að vatn flæddi yfir hann. Búist er við að hann verði opnaður aftur í dag.
„Hér áður fyrr var venjan að ekki liðu lengur en tvö ár milli hlaupa en nú liðu þrjú ár og þar á undan liðu fimm ár. Það útskýrir að miklu leyti stærð síðustu tveggja hlaupa,“ segir Gunnar.
Auður Guðbjörnsdóttir, bóndi á Búlandi í Skaftártungum, segir þau hjón vita hvað bíði þeirra þegar austari ketillinn í Skaftárjökli lætur kræla á sér.
„Veginum er lokað hjá okkur og svo gerum við ráðstafanir með búfé. Fé frá mér kemst á eyju vestan megin við brúna inn á Skaftárdal og því þurfum við að smala það. Annars verður féð innlyksa. Við höfum um sólarhring til þess,“ segir Auður.