Skoðun

Uppreisnin

Haukur Örn Birgisson skrifar
Undanfarin ár hafa stjórnmálaflokkar sem telja sjálfa sig vera uppreisnargjarna og róttæka átt töluverðu fylgi að fagna í kosningum og skoðanakönnunum. Þessir flokkar hafa boðað andstöðu við ríkjandi spillingarfyrirkomulag stjórnmálanna, endalok fjórflokksins og auðvaldsins sem bera víst ábyrgð á öllu því sem úrskeiðis hefur farið í íslensku samfélagi undanfarna áratugi. Uppreisnarflokkarnir tala fyrir nýjum stjórnmálum, umræðuhefðum og verklagi. Byltingar er þörf á ákveðnum sviðum, segja þeir.

Það getur verið þægilegt að tala úr þessari átt og það felst ákveðið frelsi í því að fá að fullyrða að aðrir beri ábyrgð á núvarandi ástandi, finna sama ástandi allt til foráttu og boða nýja og gjörbreytta tíma. Það er vel skiljanlegt að margir kjósendur kaupi slíkan málflutning því hann getur verið sannfærandi þegar hann stafar frá skeleggum ræðumönnum.

Ákveðin kaldhæðni felst hins vegar í því að ráðast gegn Kerfinu en njóta um leið ávaxta þess og nýta sér það til fullnustu. Að boða byltingar gegn núverandi stjórnkerfi og auðvaldinu á sama tíma og byltingargreinarnar eru skrifaðar á fartölvur frá stærsta fyrirtæki heims og þær birtar á Facebook vegg flokksins. Svo eru tugmilljóna ríkisstyrkirnir notaðir í að greiða rekstrarkostnað flokksskrifstofunnar og framleiðslu kosningamyndbandanna sem birtast á YouTube.

Það er þægilegt að vera uppreisnarmaður á meðan maður getur treyst því að aðrir séu það ekki. Að standa upp og yfirgefa þingpallana á Þingvöllum í fullri vissu um að hinir haldi áfram að gera skyldu sína. Að flytja ræður úr pontunum sem aðrir reistu fyrir mann og setja hauskúpulímmiða framan á Apple tölvuna sína, vitandi það að skútan heldur áfram siglingunni með jarðbundnari skipstjóra í brúnni. Til fjandans með Kerfið og kapítalismann – eða svona næstum því.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×