Erlent

Alex Jones þurrkaður út af miðlum Facebook, Apple og Spotify

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Alex Jones er þekktur fyrir líflega framsögn og umdeildar skoðanir.
Alex Jones er þekktur fyrir líflega framsögn og umdeildar skoðanir. Mynd/Skjáskot

Samfélagsmiðillinn Facebook hefur lokað fjórum síðum á vegum bandaríska samsæriskenningasmiðsins Alex Jones. Þá hafa Apple og Spotify fjarlægt hlaðvarpsþætti Jones af veitum sínum.



Facebook tilkynnti um ákvörðun sína í dag en Jones sjálfur var nýlega settur í 30 daga bann á miðlinum. Síður hans, Alex Jones Channel, Alex Jones, InfoWars og Infowars Nightly News hafa nú allar verið fjarlægðar á grundvelli „endurtekinna brota“ á reglum miðilsins, að því er fram kemur í yfirlýsingu frá Facebook.



Sjá einnig: Foreldrar fórnarlambs Sandy Hook-árásarinnar grátbiðja Zuckerberg um að kæfa samsæriskenningar



Í yfirlýsingu segir að síðurnar hafi verið bannaðar vegna þess að inn á þær hafi verið hlaðið efni sem gerði ofbeldi hátt undir höfði og byggði á hatursorðræðu í garð transfólks, múslima og innflytjenda. Sérstaklega var þó tekið fram að síðunum hafi ekki verið lokað vegna samsæriskenninga sem Jones hefur dreift á síðum sínum. Samsæriskenningarnar hverfast m.a. um árásina á Tvíburaturnana árið 2001 og skotárásina í Sandy Hook-grunnskólanum árið 2012.



Skömmu áður en Facebook tilkynnti um áðurnefndar aðgerðir fjarlægðu bæði Apple og Spotify nær allt efni úr smiðju Jones af hlaðvarpsveitum sínum. Enn er þó hægt að nálgast nokkra þætti Jones á báðum veitum.



Jones rekur hægrisamsæriskenningamiðilinn InfoWars og er, eins og áður sagði, einna þekktastur fyrir samsæriskenningar sínar. Foreldrar barna sem skotin voru til bana í áðurnefndri Sandy Hook-skotárás lögsóttu Jones fyrir ærumeiðingar fyrr á árinu. Hann hefur ítrekað haldið því fram að árásin, sem og önnur fjöldamorð í Bandaríkjunum, hafi verið sviðsett.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×