Erlent

Flugræningi framseldur til Egyptalands

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Seif al-Din Mustafa hefur nú verið framseldur frá Kýpur til heimalands síns, Egyptalands.
Seif al-Din Mustafa hefur nú verið framseldur frá Kýpur til heimalands síns, Egyptalands. Vísir/AP
Egypskur maður sem rændi flugvél og lét lenda henni á Kýpur hefur nú verið framseldur til Egyptalands, rúmum tveimur árum eftir að verknaðurinn átti sér stað.

Seif al-Din Mustafa er nafn mannsins, en honum er gefið að sök að hafa rænt flugvél egypska flugfélagsins EgyptAir og látið snúa henni af leið sinni í innanlandsflugi innan Egyptalands og lenda henni þess í stað í Larnaca á Kýpur.

Mustafa ku hafa notast við falsað sprengjuvesti til þess að ná yfirráðum yfir flugvélinni. Engan sakaði í flugráninu, en um borð í vélinni voru 56 farþegar og sex áhafnarmeðlimir.

Egypsk yfirvöld hafa síðastliðin tvö ár sóst eftir því að fá Mustafa framseldan til heimalandsins á grundvelli framsalssamnings sem gerður var á milli landanna árið 1996, en fram til þessa hafði Mustafa komist hjá því að vera framseldur á grundvelli þess að óvíst væri hvort hann fengi réttláta málsmeðferð í heimalandi sínu.

Nú hefur þó orðið breyting á þessu eftir að hæstiréttur Kýpur hafnaði á síðasta ári beiðni Mustafa um að verða ekki framseldur til Egyptalands og lenti hann á flugvellinum í Cairo í gær, í fylgd vopnaðra öryggisvarða.


Tengdar fréttir

Egypskri farþegavél rænt

Farþegaþota frá Egypska félaginu EgyptAir, er nú í höndum flugræningja. Vélin var á leið frá Alexandríu til Kaíró með um áttatíu farþega innanborðs þegar að minnsta kosti einn flugræningi tók vélina yfir. Hann virðist hafa verið með sprengjubelti um sig miðjan. Vélinni var síðan lent á Larnaca flugvelli á Kýpur á sjöunda tímanum í morgun. Svo virðist sem konum og börnum hafi nú verið leyft að yfirgefa vélina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×