Innlent

Tilefni til að huga að rafmagnsmálum

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri í Hveragerði.
Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri í Hveragerði. FRÉTTABLAÐIÐ/EYÞÓR
„Við búum á svæði þar sem náttúruhamfarir af ýmsum toga geta orðið. Þetta rafmagnsleysi gefur okkur tilefni til að fara betur yfir þessi mál í því ljósi. Hvernig við getum undirbúið okkur betur undir hugsanlegt langvarandi rafmagnsleysi í kjölfar náttúruhamfara. Það er eitthvað sem við munum gera,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði.

Rafmagnslaust varð í bænum á þriðjudag eftir að spennir í aðveitustöð gaf sig. Við framkvæmdir á byggingarlóð í bænum fór skurðgrafa í gegnum gamlan streng sem talið var að væri ekki tengdur. Það varð til þess að mikið högg kom á spenninn og olli það rafmagnsleysinu.

Skipta þurfti út spenninum og lauk þeim framkvæmdum upp úr miðnætti aðfaranótt fimmtudags. Taka þurfti rafmagn af bænum í um 20 mínútur meðan á því stóð. Samkvæmt upplýsingum frá svæðisvakt RARIK á Suðurlandi er ástandið komið í eðlilegt horf.

„Það er mikilvægt að vanda til verka þar sem verið er að vinna í og við svona viðkvæmar lagnir. Svona getur samt alltaf gerst og það er ekki við neinn að sakast,“ segir Aldís.

Hún segist ekki vita til þess að rafmagnsleysið hafi valdið neinum skemmdum sem slíkum en auðvitað hafi einhverjir tapað viðskiptum.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×