Skoðun

Mannréttindi?

Sirrý Hallgrímsdóttir skrifar
Málefni okkar minnstu bræðra eru í brennidepli. Umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að Reykjavíkurborg hefði með sinnuleysi sínu um húsnæðismál utangarðsfólks brotið gegn 76. grein stjórnarskrárinnar og fjölþjóðlegum mannréttindareglum. Niðurstaða umboðsmanns er verulegur áfellisdómur yfir stjórnvöldum Reykjavíkurborgar og munu þreytandi yfirlýsingar þeirra um manngæsku sína umfram aðra stjórnmálaflokka hljóma holar framvegis.

Þessi mannréttindabrot áttu sér stað fyrir framan nefið á starfsmönnum Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkur. Þeim til varnar þá hafa þeir undanfarna mánuði verið kirfilega uppteknir við að finna lausnir á kynjaskiptingu klósetta í ráðhúsinu, en eins og þekkt er hefur borgin margbrotið mannréttindi með því að skipta klósettum í karla- og kvennaklósett.

Það var því ekki nema von að Mannréttindaskrifstofan væri ekki að sinna húsnæðisvanda heimilislausra á meðan stóra klósettmálið er óleyst. Hvernig gat það gerst að Reykjavíkurborg, sem eitt sveitarfélaga rekur mannréttindaskrifstofu, komst upp með það að brjóta mannréttindi á utangarðsfólki eins og Umboðsmaður bendir á, án þess að þessi sama mannréttindaskrifstofa hafi æmt eða skræmt? Getur verið að áhugi Mannréttindaskrifstofunnar á mannréttindum sé sértækur og nái illa til hópa sem eiga sér ekki málsvara eins og utangarðsfólks? Eru sum mannréttindi „politically correct“ og önnur minna?

Auðvitað útilokar ekki áhersla á einn þátt mannréttinda annan. En mikið væri gaman ef einhver fréttamaður í góðu stuði tæki viðtal við mannréttindastjóra Mannréttindaskrifstofunnar og spyrði í fullri vinsemd hvernig þeim gat yfirsést þessi mannréttindabrot á fátæku fólki og hvernig það gat gerst að Mannréttindaskrifstofan hafði meiri áhyggjur af kynjaskiptingu klósetta heldur en af þeim grundvallarmannréttindum að fólk hafi þak yfir höfuðið.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×