Erlent

Manafort fundinn sekur um átta ákæruliði

Sylvía Hall skrifar
Teikning úr réttarsal. Manafort er þriðji frá vinstri.
Teikning úr réttarsal. Manafort er þriðji frá vinstri. Vísir/AP
Paul Manafort, fyrrum kosningastjóri Donald Trump, hefur verið fundinn sekur um átta ákæruliði af þeim átján sem hann var ákærður fyrir. Kviðdómur komst ekki að sameiginlegri niðurstöðu í hinum tíu liðunum.

Kviðdómurinn komst að þeirri niðurstöðu að Manafort væri sekur í sjö liðum er sneru að banka- og skattsvikum sem og einn sem sneri að því að fela erlenda bankareikninga, en hann er sagður hafa opnað fleiri en þrjátíu bankareikninga í þremur erlendum ríkjum til þess að taka við og fela tugi milljóna dollara sem hann þáði frá úkraínskum stjórnvöldum fyrir bandarískum skattayfirvöldum.

Manafort lýsti sig saklausan af öllum ákærum, en hann var meðal annars ákærður fyrir peningaþvott og skattsvik. Þá var hann sakaður um að hafa þvegið meira en átján milljónir dollara, tæplega tvo milljarða íslenskra króna, til þess að kaupa fasteignir og þjónustu.

Sjá einnig: Nýjum ásökunum bætt við ákæruna gegn Manafort

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Manafort er ákærður af saksóknara, en hann var á meðal þeirra fyrstu sem voru ákærðir í tengslum við rannsókn Robert Mueller, sérstaks saksóknara, á meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum árið 2016 og hugsanlegum tengslum við framboð Donald Trump.

Manafort, sem hefur meðal annars starfað að kosningabaráttu Ronald Reagan, George W. Bush og nú síðast sem kosningastjóri Donald Trump, brosti ekki þegar hann gekk úr dómsal en kinkaði kolli til eiginkonu sinnar sem sat í fremstu röð. Hún tjáði sig ekki við fjölmiðla þegar hún yfirgaf dómshúsið.

Lögmaður Manafort, Richard Westling, hefur beðið dómarann um 30 daga til að áfrýja málinu og bíður dómarinn eftir viðbrögðum ákæruvaldsins við beiðni lögmannsins.


Tengdar fréttir

Hefur ákært 22 á fyrsta ári rannsóknar

Sérstakur saksóknari hefur rannsakað meint samráð forsetaframboðs Donalds Trump við Rússa. Rannsóknin leitt af sér ákærur á hendur nítján einstaklingum og þremur fyrirtækjum. Stóru spurningunni enn ósvarað og þrátt fyrir þrýsting Trump-liða heldur rannsókn áfram.

Fyrrverandi tengdasonur aðstoðar við rannsókn á Manafort

Fyrrverandi tengdasonur Paul Manafort, sem eitt sinn var kosningastjóri Donald Trump, er sagður hafa náð samkomulagi við saksóknara vestanhafs sem kveður á um samstarfsvilja hans í tengslum við rannsókn á meintum brotum Manafort.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×