Erlent

Trump segist geta tekið yfir Rússarannsóknina

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/AP
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segist geta tekið yfir stjórn Rússarannsóknarinnar svokölluðu, sem meðal annars snýr að því að rannsaka forsetann sjálfan. Hann sagði einu ástæðuna fyrir því að rannsókn sérstaka saksóknarans Robert Mueller stæði enn yfir vera þá að hann hefði ekki ákveðið enn að binda enda á hana.

„Ég gæti farið þarna inn og gert hvað sem er. Ég gæti stýrt henni ef ég vildi það. Ég samt ákveðið að halda mig frá þessu,“ sagði Trump í viðtali við Reuters. „Mér er það algjörlega leyfilegt, ef ég vildi það. Enn sem komið er, hef ég ekki ákveðið að skipta mér af. Ég skipti mér ekki af.“



Lögmenn Trump hafa áður haldið því fram að hann gæti rekið Mueller úr starfi og bundið enda á rannsóknina en það er ekki ljóst hvernig hann ætti að geta tekið yfir rannsóknina.

Mueller var gert að rannsaka afskipti yfirvalda Rússlands af forsetakosningunum í Bandaríkjunum 2016, mögulegt samstarf framboðs Trump með Rússum, hvort Trump hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar og aðra glæpi sem uppgötvast við rannsóknina. Hann var skipaður í embætti sérstaks saksóknara eftir að Trump viðurkenndi í sjónvarpsviðtali að hafa rekið James Comey, fyrrverandi yfirmann Alríkislögreglu Bandaríkjanna, vegna Rússarannsóknarinnar svokölluðu.

Politico segir sérfræðinga að mörgu leyti sammála um að Trump hafi í raun vald yfir rannsókninni og hann gæti komið Mueller frá. Þingmenn Repúblikanaflokksins hafa hins vegar gefið í skyn að brottrekstur Mueller sé ekki á borðinu. þeir hafa hins vegar ekki viljað ganga svo langt að samþykkja lög sem tryggja Mueller í starfi sínu.



Samkvæmt talningu Washington Post hefur Trump þó rekið eða hótað að reka fjölmarga sem komið hafa að rannsókninni.

Í áðurnefndu viðtali kvartaði Trump yfir því að Rússarannsóknin hefði komið niður á tilraunum hans til að bæta samskipti Bandaríkjanna og Rússlands og hún hefði aukið deilur meðal almennings í Bandaríkjunum.



Óttast „gildru“

Trump ræddi einnig um mögulegt viðtal við rannsakendur Mueller og gaf hann í skyn að hann hefði áhyggjur af því að lögð yrði gildra fyrir hann. Forsetinn óttast að vitnisburður hans yrði ekki í samræmi við vitnisburði þeirra sem rannsakendur Mueller hafa þegar rætt við. Nefndi hann James Comey sérstaklega.

„Ef ég segi eitthvað og hann segir eitthvað og það er mitt orð gegn hans, og hann er besti vinur Mueller, þannig að Mueller gæti sagt: „Jæja, ég trúi Comey“ og þá jafnvel þó ég sé að segja sannleikann gerir það mig að lygara. Það er ekki gott.“

Trump hefur áður ítrekað sagst vilja ræða við Mueller en lögmenn hans hafa komið í veg fyrir það. Fjölmiðlar ytra segja Trump vissan í sinni sök um að hann gæti sannfært Mueller um að engin brot hefðu átt sér stað og fengið hann til að láta af rannsókninni.

Lögmenn forsetans óttast að rannsakendur Mueller gætu leitt Trump í gildru og óttast að hann myndi ljúga að þeim, sem er í sjálfu sér glæpur samkvæmt lögum Bandaríkjanna.


Tengdar fréttir

Ætla að berjast gegn viðtali við Mueller

Lögmannateymi Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, ætla sér að berjast af öllum krafti gegn því að Trump verði þvingaður til að ræða við rannsakendur Robert Mueller. Jafnvel þó málið þurfi að fara fyrir Hæstarétt Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×