Innlent

Hreppur skuldar tugi milljóna fyrir mistök

Sveinn Arnarsson skrifar
Stapi vinnur nú að samkomulagi við Vopnafjarðarhrepp. þetta eru háar fjárhæðir fyrir svo lítið sveitarfélag.
Stapi vinnur nú að samkomulagi við Vopnafjarðarhrepp. þetta eru háar fjárhæðir fyrir svo lítið sveitarfélag. Fréttablaðið/Pjetur
Vopnafjarðarhreppur gleymdi árið 2004 að uppfæra iðgjaldaprósentu sem vinnuveitandi til Stapa lífeyrissjóðs. Allt til ársins 2016 greiddi hreppurinn því of lágt iðgjald til sjóðsins fyrir þá starfsmenn sína sem eru í lífeyrissjóðnum. Oddviti Samfylkingarinnar segir að um mannleg mistök sé að ræða og að viðræður séu í gangi við sjóðinn um uppgjör á því sem upp á vantar.

Málið var tekið fyrir á síðasta fundi hreppsnefndar Vopnafjarðarhrepps þar sem Þóri Steinarssyni sveitarstjóra var falið að vinna að málinu ásamt lögmanni hreppsins.

„Skuldin nemur um 66 milljónum króna. Unnið er að því að ganga frá málinu í samráði við sjóðinn,“ segir Þór í samtali við Fréttablaðið.

Í upphafi árs voru íbúar sveitarfélagsins um 650 og hefur þeim fækkað nokkuð á síðustu árum og áratugum. Til samanburðar voru á sama tíma um 126 þúsund íbúar í Reykjavík. Skuld Vopnafjarðarhrepps er í samanburði eins og að Reykjavík skuldaði lífeyrissjóði um 12,5 milljarða króna.

„Það var auðvitað smá sjokk þegar þetta kom í ljós. Þetta eru fyrst og fremst mannleg mistök sem við þurfum að vinna úr og leysa,“ segir Bjartur Aðalbjörnsson, oddviti Samfylkingarinnar í meirihluta Vopnafjarðarhrepps

Fjölmargir íbúar hreppsins eru í lífeyrissjóðnum og því er um stórar upphæðir að ræða fyrir lítið sveitarfélag. Bjartur segir að samtalið við Stapa gangi út á að endurgreiðsla hreppsins til lífeyrissjóðsins verði ekki íþyngjandi fyrir sveitarsjóð.

„Hér er um nokkuð langt tímabil að ræða. Á þeim forsendum snúast samskipti okkar við Stapa um að greiða þetta niður með einhverjum hætti sem er hagfelldur fyrir báða aðila,“ segir Bjartur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×