Markmið dómsmálaráðuneytisins er að níu af hverjum tíu lögreglumönnum telji sig örugga við skyldustörf. Niðurstaða skoðunar í fyrra sýni það hins vegar að aðeins 74 prósent lögreglumanna telji sig vera örugg í starfi. „Þetta er eitthvað sem þarf að bæta og hangir saman við það sem við höfum margoft sagt. Það þarf að fjölga lögreglumönnum. Við teljum það vera meginskýringuna á þessu,“ segir Snorri.

Árið 2012 kannaði lögreglan sjálf öryggi starfsmanna sinna og segir Snorri að svipaðar tölur hafi komið út úr þeirri rannsókn. „Það hefur lítið breyst í þessum efnum enda hefur mönnun lögreglunnar ekkert skánað á öllum þessum tíma. Hins vegar hefur verkefnum okkar fjölgað svo um munar á sama tíma. Við höfum talað fyrir daufum eyrum stjórnvalda lengi og virðist engu skipta hverjir eru við stjórnvölinn í þeim efnum,“ segir formaður Landssambands lögreglumanna að lokum.