Fótbolti

Sigurinn á Íslandi kemur Belgum á toppinn á heimslistanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Romelu Lukaku skorar hér þriðja mark Belgíu í leiknum í gær.
Romelu Lukaku skorar hér þriðja mark Belgíu í leiknum í gær. Vísir/Vilhelm
Belgar unnu 3-0 sigur á Íslandi á Laugardalsvellinum í gærkvöld en bronsliðið frá HM í sumar sýndi þar og sannaði að það fer eitt allra besta lið heims.

Eftir sigurinn í Dalnum geta Belgar aftur á móti kallað sig besta fótboltalið heims.

Spænski tölfræðingurinn Alexis Martín-Tamayo hefur reiknað það út að Frakkland og Belgía verði efst og jöfn á næsta FIFA-lista. Það hefur aldrei gerst áður.





Frakkar eru heimsmeistarar og voru í efsta sæti heimslistans eftir HM. Bæði þessi landslið verða með 1729 stig á FIFA-listanum og ættu því samkvæmt því að deila toppsætinu.

Franska landsliðið komst í úrslitaleikinn eftir 1-0 sigur í jöfnum og spennandi undanúrslitaleik á móti Belgíu á HM í Rússlandi í sumar þar sem mörgum fannst að Belgar áttu alveg eins skilið að komast í úrslitaleikinn á móti Króatíu.

Belgarnir voru gríðarlega flottir á Laugardalsvellinum í gær og var þetta ein mest sannfærandi frammistaða hjá landsliði í Dalnum í mörg ár.





Romelu Lukaku, framherji Manchester United, skoraði tvö mörk og Eden Hazard, leikmaður Chelsea, skoraði fyrsta markið úr vítaspyrnu.

Íslenska liðið barðist vel og reyndi að bíta frá sér en það var öllum ljóst sem á horfðu að mótherjinn var bara alltof sterkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×