Bragginn og byggingarnar við hann voru reistar árið 1943 og voru á sínum tíma nýttar sem gistihús fyrir þá sem áttu leið um Reykjavíkurflugvöll. Gert var ráð fyrir 158 milljóna króna kostnaði við endurbætur á byggingunum en kostnaðurinn hljóðar í dag upp á 415 milljónir króna. Mismunurinn nemur tæpum 260 milljónum króna.
„Kostnaðarmatið miðaðist við að það yrði hægt að nota miklu meira en reyndist vera nothæft þegar út í verkið var komið," segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, um þennan mikla mismun.

Það er í rauninni fátt sem stendur eftir af gamla bragganum sem hefur verið endurbyggður en þar er nú rekinn matsölustaður. Í náðhúsinu verður fyrirlestrarsalur fyrir Háskólann í Reykjavík og frumkvöðlasetur verður í öðru húsi. Byggingarnar eru friðaðar í deiliskipulagi en ekki hjá Minjastofnun Íslands og tekur stofnunin því ekki þátt í kostnaði við endurbætur. Dagur telur að skoða beri hvort styrkir eigi að fylgja endurbótum á byggingum með sögulegt gildi.

Flokkur Fólksins lagði í dag fram tillögu um að Háskólinn í Reykjavík eða Minjastofnun greiði mismuninn. Forstöðumaður Minjastofnunar Íslands segir stofnunina ekki hafa gert kröfu um að haldið yrði í gömlu byggingarnar og vísar ábyrgð á bug. Þá segir í leigusamning sem Háskólinn í Reykjavík hefur gert um húsnæðið að aukinn framkvæmdakostnaður sem komi til vegna minjaverndar leiði ekki til hækkunar á leigu.
Voru mistök gerð við þessar framkvæmdir?
„Það er kannski ekki hægt að slá því föstu en eftir stendur að verkið fór mjög mikið fram úr," segir Dagur.