Skoðun

Brotið í blað í málefnum fatlaðs fólks

Ásmundur Einar Daðason skrifar
Í gær, 1. október, tóku gildi ný heildarlög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Lögin fela í sér mikilvægar réttarbætur fyrir fatlað fólk. Eitt ber tvímælalaust hæst en það er lögleiðing notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA). Þessi dagur á því án efa eftir að festa sig í huga þeirra fjölmörgu sem hafa til margra ára barist fyrir því að þetta fyrirkomulag þjónustu yrði sjálfsagður réttur fatlaðs fólks sem þarf á miklum stuðningi að halda til að fá notið sín í samfélaginu og tekið í því virkan þátt og sem mest á jafnréttisgrundvelli.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem undirritaður var af Íslands hálfu árið 2007, hefur haft mikil áhrif á viðhorf samfélagsins til fatlaðs fólks á liðnum árum og ýtt undir margvíslegar úrbætur, bæði til að efla og bæta þjónustu en ekki síður að efla mannréttindi og auka vernd fólks með fötlun. Í samningnum eru tilgreindar almennar meginreglur um túlkun og framkvæmd hans. Þar má nefna áhersluna á frelsið til að taka eigin ákvarðanir og sjálfstæði einstaklinga, fulla þátttöku í samfélaginu án aðgreiningar, virðingu fyrir mannlegum fjölbreytileika, áhersluna á jöfn tækifæri fólks og jafnrétti kynjanna.

Hugmyndafræðin að baki NPA á rætur að rekja til viðhorfsbreytinga sem leitt hafa af samningi Sameinuðu þjóðanna. NPA gerir fötluðu fólki kleift að ráða hvar og með hverjum það býr, viðkomandi stýrir sjálfur hvernig aðstoðin er skipulögð, hvenær hún er veitt og af hverjum. Kveðið er á um rétt til aðstoðar við skipulag þjónustunnar þurfi fatlaður einstaklingur á slíkri aðstoð að halda.

Þjónusta við fatlað fólk er á hendi sveitarfélaganna og hefur svo verið frá árinu 2011. Síðan þá hefur verið unnið markvisst að innleiðingu NPA þjónustuformsins með tilraunaverkefni um framkvæmdina. Sveitarfélögin hafa því umtalsverða þekkingu og reynslu á að byggja og ég er sannfærður um að þeim sé ekkert að vanbúnaði að veita þessa þjónustu, fötluðum og samfélaginu til gagns og góðs.




Skoðun

Sjá meira


×