Innlent

Bæjarstjórn Bolungarvíkur segir óvissu í fiskeldi vera ólíðandi

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Bolvíkingar segja fiskeldi vera umhverfisvæna atvinnugrein.
Bolvíkingar segja fiskeldi vera umhverfisvæna atvinnugrein. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
 „Það er óásættanlegt að rekstrargrundvelli fyrirtækja á Vestfjörðum, sem og annars staðar á Íslandi, sé kippt undan þeim eins og staðan er nú í íslensku fiskeldi,“ segir bæjarstjórn Bolungarvíkur í nýrri bókun.

Bæjarstjórnin, sem vitaskuld er að vísa til tveggja úrskurða um ógildingu leyfa fyrir laxeldi fyrir vestan, segir að Vestfirðingar þekki það „alltof vel að framfaramál í fjórðungnum séu stöðvuð af óljósum, tæknilegum ástæðum,“ eins og segir í bókuninni.

„Það er ólíðandi að íbúar í Vesturbyggð og Tálknafirði séu skildir eftir í mikilli óvissu og nauðsynlegt að þetta fólk fái afdráttarlausan stuðning stjórnvalda. Nú er málið komið á þann stað að aðgerða er þörf,“ segir bæjarstjórnin. Fiskeldi sé umhverfisvænt og geti orðið einn af hornsteinum íslensks atvinnulífs.

„Ekki hefur verið farið fram á annað en að uppbyggingin verði í sátt við náttúru og að uppfylltum skilyrðum,“ segir bæjarstjórnin sem skorar á stjórnvöld að beita sér fyrir því að skapa umgjörð um fiskeldi á Íslandi sem „gerir því kleift að vaxa til framtíðar án sífelldra áfalla, vandamála og uppákoma eins og samfélagið hefur orðið vitni að undanfarna daga og vikur.“– gar


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×