Erlent

Ákærði tjáði oftsinnis hatur sitt á gyðingum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Bowers er ákærður fyrir að hafa myrt ellefu sóknarbörn.
Bowers er ákærður fyrir að hafa myrt ellefu sóknarbörn. NordicPhotos/Getty
Robert Gregory Bowers, sem var handtekinn á laugardag og er ákærður fyrir að hafa myrt ellefu sóknarbörn í samkunduhúsi gyðinga í bandarísku borginni Pittsburgh, tjáði megnt hatur sitt á gyðingum bæði á meðan hann á að hafa verið að skjóta á gyðinga í sýnagógunni og við lögreglumenn eftir að hann var handtekinn. Þetta segir í ákærunni sem birt var í gær og er þar meðal annars haft eftir Bowers: „Ég vildi bara drepa gyðinga.“

Auk þess að vera ákærður í ellefu liðum fyrir „tálmun á trúfrelsi með banvænum afleiðingum“ er Bowers meðal annars ákærður í ellefu liðum fyrir að hafa notað skotvopn í ofbeldisskyni og fyrir að hafa sært sex með byssu sinni.

Scott Brady saksóknari sagði á blaðamannafundi í gær að Bowers færi fyrir dóm í dag. „Það að árásin átti sér stað á meðan guðsþjónusta fór fram gerir glæpinn enn svívirðilegri,“ sagði Brady.

Tvö hinna særðu voru enn í lífshættu í gær. Þrjú, þar af einn lögregluþjónn, voru enn á sjúkrahúsi en ekki í lífshættu og einn lögregluþjónn til viðbótar hafði verið útskrifaður af sjúkrahúsi.

Bowers hafði áður margsinnis tjáð andúð sína á gyðingum á veraldarvefnum. Samkvæmt Reuters hafði hann meðal annars gagnrýnt Donald Trump forseta fyrir að koma ekki í veg fyrir að gyðingar „sýktu“ Bandaríkin. Á laugardagsmorgun, áður en Bowers á að hafa gert árásina, setti hann inn færslu þar sem hann sakaði Hebrew Immigrant Aid Society, samtök til hjálpar flóttamönnum sem eru gyðingar, um að flytja inn morðingja til Bandaríkjanna. „Ég get ekki bara setið hjá og horft upp á þá slátra fólkinu mínu. Til andskotans með hvernig þetta lítur út, ég ætla að grípa til aðgerða.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×