Erlent

Washington undirbýr sig fyrir stríð

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump ætlar sér að berjast gegn rannsóknum Demókrata.
Donald Trump ætlar sér að berjast gegn rannsóknum Demókrata. AP/Evan Vucci
Stjórnmála- og embættismenn í Washington DC undirbúa sig nú fyrir pólitískt stríð í kjölfar yfirtöku Demókrata á fulltrúadeild Bandaríkjaþings og brottreksturs Jeff Sessions, dómsmálaráðherra. Rússarannsóknin svokallaða, sem Robert Mueller stýrir, er sögð í hættu eftir brottrekstur Sessions og Demókratar ætla sér að verja hana.

Nancy Pelosi, sem þykir líklegust til að leiða Demókrata í fulltrúadeildinni, segir að flokkurinn muni nota vald deildarinnar til að fylgja störfum ríkisstjórnarinnar náið eftir.

Donald Trump, forseti, hefur heitið því að hefji Demókratar rannsóknir á hegðun hans og mögulegri spillingu innan ríkisstjórnar hans, muni Repúblikanar nota öldungadeildina til að rannsaka Demókrata. Forsetinn sagði sérstaklega að Demókratar yrðu rannsakaðir fyrir að leka trúnaðargögnum. Hann færði þó engar sannanir fyrir ásökuninni né gaf hann í skyn hvaðan hún væri komin.



Þá sagði hann á blaðamannafundi í gær að ef Demókratar myndu rannsaka hann eða ríkisstjórn hans myndu Repúblikanar fara í stríðsstöðu.

Samkvæmt heimildum Washington Post innan Hvíta hússins er Trump ánægður með aukinn meirihluta Repúblikana í öldungadeildinni en á sama tíma hefur hann áhyggjur af því að Repúblikanar stjórni fulltrúadeildinni ekki lengur.

Þá hefur hann sagt að hann muni berjast gegn öllum stefnumálum Demókrata og að meðlimir ríkisstjórnarinnar ættu ekki að starfa með þingnefndum fulltrúadeildarinnar.

Trump hefur þó lýst kosningunum sem miklum og góðum sigri.

Fyrrverandi starfsmenn George W. Bush segja þó að kosningarnar hafi ekki verið sigur fyrir forsetann. Þeir segja það hafa reynst Hvíta húsinu erfitt þegar Demókratar tóku við völdum í fulltrúadeildinni tveimur árum eftir að Bush varð forseti. Þeir hafi fjölgað lögmönnum í Hvíta húsinu til að svara fyrirspurnum Demókrata en það hafi aldrei verið nóg af þeim.

Þar að auki þykir óreiða ríkja innan skrifstofu lögmanna Hvíta hússins og fáir lögmenn eru tilbúnir til að starfa innan veggja þess.

Vilja skattaskýrslur

Meðal þess sem Demókratar eru sagðir ætla sér er að nálgast skattaskýrslur Trump frá síðustu árum. Hann fór gegn þeirri áratugagömlu venju forsetaframbjóðenda og opinberaði ekki skattaskýrslur sínar svo hægt væri að bera kennsl á mögulega hagsmunaárekstra. Trump hélt því fram að hann gæti ekki opinberað skattaskýrslurnar vegna þess að Skatturinn hefði hann til rannsóknar, sem var rétt.

Það hefði þó ekki þurft að koma í veg fyrir opinberun skýrslunnar eins og starfsmenn Skattsins í Bandaríkjunum sögðu.

Demókratar ætla sér einnig að safna frekari fjármálaupplýsingum og sanna það sem margir þeirra hafa haldið fram, að Donald Trump sé persónulega að hagnast á forsetaembættinu. Undanfarin tvö ár hafa lögmenn fyrirtækis Trump og Hvíta hússins ítrekað komið í veg fyrir aðgang þingmanna að smávægilegustu gögnum um fjármál forsetans og fyrirtækis hans.

AP fréttaveitan bendir til dæmis á að þingmenn Demókrataflokksins hafi reynt að fá upplýsingar um það hvernig Trump ætlaði að slíta sig frá rekstri fyrirtækis hans á meðan hann væri forseti, sem hann hefur ekki gert. Það hafi þó ekki borið árangur og sömuleiðis hafi ekki borið árangur að reyna að fá upplýsingar um upphæðir sem erlendir erindrekar verja á hótelum Trump.



Þingmennirnir hafa einnig reynt að fá svör við því hvernig Trump fékk samþykkt að halda áfram leigu sinni á húsnæði hótels hans í Washington. Húsnæðið er í eigu ríkisins og í leigusamningi þess segir að enginn embættismaður ríkisstjórnar Bandaríkjanna megi hagnast á rekstri þess. Bæði Trump sjálfur og dóttir hans Ivanka eiga hlut í félaginu sem heldur utan um rekstur hótelsins.

Demókratar þykja einnig líklegir til að endurvekja rannsókn þingsins á mögulegu samstarfi framboðs Trump með Rússum varðandi afskipti þeirra af forsetakosningunum 2016.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×