Erlent

Trump ræðir við CIA um morð Khashoggi

Samúel Karl Ólason skrifar
Trump segir Sádi-Arabíu vera mikilvægt bandalagsríki Bandaríkjanna.
Trump segir Sádi-Arabíu vera mikilvægt bandalagsríki Bandaríkjanna. AP/Jacquelyn Martin
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, mun í kvöld ræða við starfsmenn Leyniþjónustu Bandaríkjanna, CIA, um mat stofnunarinnar að Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, hafi fyrirskipað morðið á blaðamanninum Jamal Khashoggi. Hann var myrtur í ræðisskrifstofu Sáda í Istanbúl í Tyrklandi í síðasta mánuði.

Yfirvöld Sádi-Arabíu hafa þvertekið fyrir að krónprinsinn hafi komið að morðinu með nokkrum hætti. Þeir segja hóp manna hafa farið á eigin vegum og myrt Khashoggi. Til stendur að taka fimm menn af lífi í Sádi-Arabíu en yfirvöld þar hafa sakað þá um morðið.

Mohammed bin Salman, sem gjarnan er kallaður MBS, er í raun leiðtogi Sádi-Arabíu og bandamaður ríkisstjórnar Trump. Þessar nýjustu vendingar þykja ekki líklegar til að auðvelda viðleitni Trump til að viðhalda góðu sambandi við Sáda.

Trump ræddi við blaðamenn áður en hann lagði af stað til Kaliforníu í dag og sagði að honum yrði kynnt málið seinna í dag. Þá tók hann sérstaklega fram að Sádar hefðu staðhæft við hann að MBS hefði ekki komið að morðinu.

„Þeir hafa verið frábærir bandamenn varðandi störf og efnahagsþróun. Sem forseti, þarf ég að huga að mörgum hlutum við ákvarðanatöku,“ sagði Trump.

Bandaríkin hafa beitt 17 aðila í Sádi-Arabíu viðskiptaþvingunum og annars konar refsiaðgerðum vegna málsins. Þingmenn bæði Repúblikanaflokksins og Demókrataflokksins hafa þó kallað eftir frekari refsiaðgerðum gegn yfirvöldum ríkisins, meðal annars með því að stöðva sölu vopna til Sádi-Arabíu.

Hershöfðinginn James Dunford, sem er formaður herforingjaráðs Bandaríkjanna, sagði í dag að Sádi-Arabía spilaði stórt hlutverk sem bandalagsríki Bandaríkjanna í Mið-Austurlöndum og að ríkið skapaði stöðugleika þar.

„Sádi-Arabía hefur verið mikilvægt bandalagsríki varðandi öryggi í Mið-Austurlöndum og ég tel að þeir verði svo í framtíðinni,“ sagði hershöfðinginn á ráðstefnu í Halifax í dag.


Tengdar fréttir

Tyrkir hafa deilt upptökum sem tengjast morðinu á Khashoggi

Tyrkir hafa deilt myndböndum sem tengjast morðinu á Jamal Khashoggi með Bandaríkjunum, Bretlandi, Sádi Arabíu og fleirum. Forseti Tyrklands Recep Tayyip Erdogan ítrekaði það sem hann hefur fullyrt að Sádi Arabar vita hvert hafi myrt Khashoggi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×