Körfubolti

Martin veikur en setti samt 45 stig

Benedikt Grétarsson skrifar
Justin Martin í baráttu við Michael Craion
Justin Martin í baráttu við Michael Craion vísir/bára
„Það var mikilvægt að ná í sigurinn. Okkur hefur vantað leikstjórnanda í undanförnum leikjum (Matthías Orri Sigurðarson er meiddur) og erum í raun að leita að takti aftur í liðið. Takturinn var til staðar í sókninni en varnarlega getum við bætt okkur mikið,“ sagði Justin Martin sem átti frábæran leik fyrir ÍR í 118-100 sigri liðins gegn Val í Dominosdeild karla.

Þrátt fyrir að Martin hafi skorað 45 stig, viðurkenndi kappinn að heilsan væri ekki góð.

„Mér líður ekki vel, er bara hundveikur. Þetta er bara hörkuvinna að ná svona leik og reyna að ná einhverjum stöðugleika. Ég geri bara það sem ég þarf að gera til að liðið mitt vinni körfuboltaleiki“

Ágúst Björgvinsson, þjálfari Vals vildi meina að sigur ÍR væri ekki síst að þakk þeirri staðreynd að liðið rúllaði yfir Val í frákastabaráttunni.

„Þetta er alltaf lykilatriði, þ.e. að stýra fráköstunum og ná í kjölfarið að nýta það til góðra verka. Varnarfráköst skila hraðupphlaupum og auðveldum körfum. Sóknarfráköst skila körfum, svo einfalt er það. Við erum með eitt hávaxnasta lið deildarinnar og verðum að að eigna okkur teiginn.“

Stuðningsmannasveit ÍR fór mikinn á pöllunum og Martin kann svo sannarlega að meta þeirra stuðning.

„Úff maður, þetta er einstakt. Ég hef leikið í nokkrum löndum í Evrópu en þessir áhorfendur eiga sérstakan stað í mínu hjarta. Þeir koma alltaf með mikla og góða orku með sér og það er nánast eins og að hafa sex leikmenn á vellinum. Ghetto Hooligans, þeir heita það víst,“ sagði Martin brosandi að lokum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×