Erlent

Trump aflýsir fundi með Pútín

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti er nú á leið á fund G20-ríkjanna í Argentínu.
Donald Trump Bandaríkjaforseti er nú á leið á fund G20-ríkjanna í Argentínu. Getty/Win McNamee
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur aflýst fyrirhuguðum fundi hans og Vladimír Pútín Rússlandsforseta vegna deilna rússneskra og úkraínskra stjórnvalda.

Rússneskir landamæraverðir skutu á þrjú skip úkraínska hersins á sunnudag og eru með áhafnir skipanna í haldi. Sökuðu Rússar Úkraínumenn um að hafa siglt inn í rússneska landhelgi í Asovshafi nærri Krímskaga.

Trump greindi frá því á Twitter í dag að hann myndi ekki eiga tvíhliða fund með Pútín í tengslum við fund G20-ríkjanna í Argentínu sem hefst á morgun. Sagði hann ástæðuna vera að úkraínsku sjóliðunum og skipunum hafi enn ekki verið sleppt úr haldi.

Skjótt skipast veður í lofti

Fyrr í dag hafði hann greint fjölmiðlamönnum frá því að hann myndi „líklega“ hitta rússneskan starfsbróður sinn og að þetta væri „góður tími“ til að funda með honum. Rússlandsstjórn hafði áður greint frá því að forsetarnir myndu funda í Buenos Aires á laugardagsmorgun, en slík staðfesting barst þó aldrei frá Hvíta húsinu.

Spennan á milli Rússlands og Úkraínu hefur aukist til muna á síðustu dögum og hefur Úkraínuþing samþykkt að setja á herlög í stórum hlutum landsins. Hefur Petró Pórósjenkó Úkraínuforseti hvatt NATO til að senda herskip á vettvang.

Um 10 þúsund manns hafa látið lífið í austurhluta Úkraínu frá því að Rússar innlimuðu Krímskaga og aðskilnaðarsinnar lýstu einhliða yfir sjálfstæði héraða í austurhluta Úkraínu.

Angela Merkel Þýskalandskanslari segir að Rússar beri alfarið ábyrgð á deilunni og að hún myndi taka málið upp þegar hún hittir Pútín í Argentínu.


Tengdar fréttir

Ræða um nýjar þvinganir gegn Rússum

Leiðtogar Evrópusambandsríkja velta fyrir sér nýjum þvingunum gegn Rússum vegna hertöku úkraínskra herskipa á Asovshafi. Yfirmaður úkraínska sjóhersins segir Rússa þrýsta á, jafnvel pynta, sjóliða í haldi.

Vill að NATO sendi herskip til Asóvshafs

Petro Poroshenko, forseti Úkraínu, hefur kallað eftir því að Atlantshafsbandalagið sendi herskip til Asóvshafs til aðstoðar Úkraínu og til að tryggja öryggi á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×