Viðskipti innlent

Monki opnar á Íslandi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Komu Monki hefur verið beðið með nokkurri eftirvæntingu.
Komu Monki hefur verið beðið með nokkurri eftirvæntingu. Getty/Dave M. Benet
Sænska fataverslunarkeðjan Monki mun opna 450 fermetra verslun í Smáralind næsta vor.

Þetta kemur í tilkynningu frá fyrirtækinu sem send var á fjölmiðla í morgun. Þar er haft eftir svæðisstjóra Monki að Ísland sé spennandi markaður og að þau hlakki til að kynna vörur sínar fyrir Íslendingum. 

Föt Monki eru sögð innblásin af skandinavískum og asískum straumum og er þeim ætlað að „styðja við konur um allan heim til þess að líða vel í eigin skinni.“ Orð eins og „glimmer“ og „glitrandi“ koma einnig við sögu, auk þess sem að Monkifólk tekur sérstaklega fram, einhverra hluta vegna, að í nýju versluninni verði haugur af diskókúlum. 

Monki er í eigu H&M Group en auk samnefndra verslana rekur stórfyrirtækið jafnframt verslunarkeðjuna Weekday, sem jafnframt mun opna útibú í Smáralind í náinni framtíð. Því má ætla að viðtökur Íslendinga við H&M, sem nú þegar rekur þrjár verslanir á Íslandi, hafi sannfært forsvarsmenn fyrirtækisins um að hér væri markaður fyrir ódýran skandinavískan fatnað. 

Með þessu áframhaldi ætti landsmenn því ekki að reka í rogastans ef einnig verður tilkynnt um komu verslana á borð við Cos eða & Other Stories, sem jafnframt eru undir hatti H&M Group.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×