Heather Nauert var fréttamaður og síðar þáttastjórnandi hjá Fox News, íhaldssömu sjónvarpsstöðinni sem er í uppáhaldi hjá forsetanum, frá 1996. Hún var meðal annars einn stjórnenda þáttarins „Fox and Friends“ sem Trump horfir reglulega á og vitnar í á Twitter.
Washington Post segir að Trump ætli sér að tilnefna hana til sendiherrastöðunnar. Þar myndi hún taka við af Nikki Haley, fyrrverandi ríkisstjóra Suður-Karólínu, sem sagði af sér í byrjun október. Haley hafði heldur enga reynslu af utanríkismálum áður en hún var skipuð í embættið. Nauert er sögð hafa verið staðfastur verjandi Trump forseta, jafnvel á meðan Rex Tillerson, fyrrverandi utanríkisráðherra, átti í stormasömu sambandi við Hvíta húsið.
Öldungadeild Bandaríkjaþings þarf að staðfesta skipan sendiherra.
