Erlent

Forstjóri CIA kemur fyrir Bandaríkjaþing vegna morðsins á Khashoggi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Jamal Khashoggi var afar gagnrýninn á yfirvöld í Sádi-Arabíu.
Jamal Khashoggi var afar gagnrýninn á yfirvöld í Sádi-Arabíu. vísir/epa
Gina Haspel, forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar CIA, mun í dag koma fyrir Bandaríkjaþing og gefa skýrslu um morðið á sádi-arabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi.

Haspel var ekki viðstödd í liðinni viku þegar utanríkisráðherra og varnarmálaráðherra Bandaríkjanna gáfu skýrslu en fjarvera Haspel vakti gremju hjá einhverjum þingmönnum.

Khashoggi var myrtur á sádi-arabísku ræðisskrifstofunni í Istanbúl í byrjun október. Bandarískir fjölmiðlar hafa greint frá því að niðurstaða CIA sé að sádi-arabíski krónprinsinn Mohammed bin Salman hafi líklega skipað fyrir um morðið.

Yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa ákært ellefu manns fyrir morðið en neita því alfarið að krónprinsinn hafi nokkuð með málið að gera, en CIA er sagt hafa sannanir um skilaboð á milli krónprinsins og Saud al-Qahtani sem á að hafa séð um að Khashoggi var myrtur.

Sjá einnig:Dularfulla morðið á Jamal Khashoggi

Gina Haspel er forstjóri CIA.vísir/epa
Mike Pompeo, utanríkisráðherra, og James Mattis, varnarmálaráðherra, sögðu öldungadeildarþingmönnum í liðinni viku að það væru engar beinar sannanir fyrir þátttöku krónprinsins.

Þá hefur Donald Trump, Bandaríkjaforseti, sagt að niðurstaða CIA sé ekki endanleg.

„Það getur vel verið að krónprinsinn hafi haft vitneskju um þennan sorglega atburð. Kannski hafði hann það, kannski ekki,“ var haft eftir Trump um málið fyrir tveimur vikum.

Haspel er sögð mjög ósátt við að niðurstöðu CIA hafi verið lekið en leyniþjónustan hefur ekki staðfest fréttir þess efnis að hún muni koma fyrir þingið í dag.


Tengdar fréttir

Trump ætlar ekki að refsa Sádum frekar

"Kannski gerði hann það og kannski ekki,“ segir forsetinn um krónprins Sádi-Arabíu og aðkomu hans að grimmilegu morði blaðamannsins Jamal Khashoggi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×