Innlent

Karl Gauti segist ekki hafa kallað Eygló „galna kerlingaklessu“

Samúel Karl Ólason skrifar
Karl Gauti Hjaltason, fyrrverandi þingmaður Flokks fólksins.
Karl Gauti Hjaltason, fyrrverandi þingmaður Flokks fólksins. vísir/vilhelm
Karl Gauti Hjaltason segir fjölmiðla hafa ranglega eignað sér ummæli af Klaustursupptökunni svokölluðu um Eygló Harðardóttur. Blaðamenn Stundarinnar, sem fengu upptökuna senda, sögðu frá því í morgun að Karl Gauti hefði kallað Eygló „galna kerlingarklessu“.

Karl Gauti segir þetta rangt. Hann segir upptökuna afar óskýra og gagnrýnir fjölmiðla fyrir að fullyrða að hann hafi látið þessi orð frá sér. Hann geti sjálfur ekki greint hver talaði eftir að hafa marghlustað á þetta brot úr upptökunni.

„Ég þekki hins vegar mitt orðfæri og mína rödd. Þessi orð voru ekki mín og sú rödd sem talar er það ekki heldur,“ segir Karl Gauti í yfirlýsingu.

„Það er ekki hægt að gera athugasemdir við að fjölmiðlar birti efni úr upptöku af þessu tagi úr því að hún er til. Það er hins vegar mikilvægt að þeir nálgist slíka endursögn af varfærni og lágmarkskrafa er að þeir viti nákvæmlega hver sagði hvað þegar þeir velja sér uppsláttarfyrirsagnir um einstakar setningar.“

Þá segir Karl Gauti að honum þyki leitt að hafa setið þennan fund allt of lengi en hann hafi sjálfur ekki lagt orð í belg sem geti talist siðferðislega ámælisvert.

Stjórn Flokks fólksins tók þá ákvörðun klukkan tvö í gær að reka Karl Gauta og Ólaf Ísleifsson úr flokknum fyrir framgöngu sína á Klausturbar. Niðurstaðan er tekin á þeim grundvelli að þeir hafi verið staðnir að því að vinna gegn meginmarkmiðum og hagsmunum flokksins. Atkvæði voru greidd um tillöguna en átta voru fylgjandi henni og aðeins einn var á móti.

Í samtali við Vísi í gær sagðist Karl Gauti þó ekki vera á leiðinni út og ítrekar hann það í yfirlýsingunni.

„Ákvörðun stjórnar Flokks fólksins mun engu breyta um áherslur mínar í áframhaldandi störfum mínum sem þingmaður. Ég gaf kjósendum mínum fyrirheit um áherslur og við þau mun ég standa.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×