Erlent

Krefjast enn fimm milljarða dala til að byggja vegg

Samúel Karl Ólason skrifar
Trump hefur sagt að hann muni stöðva rekstur um fjórðungs stjórnvalda Bandaríkjanna þar til hann fær fimm milljarða til að byggja vegg.
Trump hefur sagt að hann muni stöðva rekstur um fjórðungs stjórnvalda Bandaríkjanna þar til hann fær fimm milljarða til að byggja vegg. AP/Evan Vucci
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, starfsmenn hans og ráðgjafar eru tilbúnir til að gera hvað sem er til tryggja að veggur verði byggður á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Þar á meðal er að stöðva rekstur hluta alríkisstofnanna Bandaríkjanna með því að neita að skrifa undir ný fjárlög. Trump-liðar vilja minnst fimm milljarða dala til byggingar veggjarins en lítill stuðningur virðist fyrir því á þingi. Hvorki meðal Demókrata eða Repúblikana.

Ekkert útlit er fyrir lausn á deilunni og því er útlit fyrir að hluta alríkisstofnanna verði lokað á föstudaginn. Þar á meðal Heimavarnarráðuneyti Bandaríkjanna, þjóðgarðar, landbúnaðarráðuneytið og samgönguráðuneytið.

Stephen Miller, ráðgjafi Trump, sagði í sjónvarpsviðtali í gær að Hvíta húsið myndi gera hvað sem er til að ná sínu fram. Þar kæmi meðal annars til greina að stöðva rekstur stjórnvalda.



Báðum deildum þingsins er enn stjórnað af Repúblikanaflokknum en forsvarsmenn flokksins eiga þó við ákveðinn vanda að stríða. Flokkurinn tapaði tugum þingmanna í kosningunum í síðasta mánuði og þeir þingmenn sem eru að missa störf sín og aðrir sem höfðu ákveðið að hætta, hafa sýnt því einkar lítinn áhuga hjálpa Trump að ná markmiði sínu og að taka þátt í atkvæðagreiðslum.



Repúblikanar höfðu fengið Trump til að láta af kröfum sínum í kjölfar kosninganna í síðasta mánuði. Nú er Trump hins vegar harður á því að fá peninga svo hann geti staðið við kosningaloforð sitt um að byggja vegg. Í kosningabaráttunni lofaði Trump að Mexíkó myndi borga fyrir vegginn. Þeir neituðu hins vegar að borga.

Þingið hefur lagt til að veita 1,6 milljörðum dala í aukið eftirlit á landamærunum og viðgerðir á grindverkum. Það er hins vegar tekið fram í frumvarpi þingsins að enginn hluti þeirrar fjárveitingar megi fara í byggingu veggjarins.

Þingmenn eru, samkvæmt AP fréttaveitunni, sammála um að næsta skref þurfi að koma frá Hvíta húsinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×