Skoðun

Innri og ytri fegurð

Úrsúla Jünemann skrifar
Hversu miklu máli skiptir útlit fólks í okkar þjóðfélagi? Ég held að það hafi talsverð áhrif á mat okkar hvernig við erum klædd, greidd, klippt og snyrt. Það byrjar þegar á ungum árum. Krakkar eru í hættu að verða lagðir í einelti ef þeir eru „öðruvísi“ í sínum klæðaburði, tolla ekki í tískunni.

Nýlega var einum þingmanni mikið hjartans mál að ræða klæðaburð starfsbræðra sína, hvort það væri í lagi að menn kæmu í gallabuxum og án bindis. Sjálfstæðismaðurinn Ásmundur Friðriksson vildi ganga svo langt að álit á störfum Alþingis myndi dala ef menn myndu ekki halda í gamlar hefðir í klæðaburði. Hvað gengur manninum eiginlega til að tala um þetta í pontu þegar frekar þarf að ræða og afgreiða mörg mikilvæg mál?

Það er stundum talað um innri og ytri fegurð. Menn sem eru til fara eins og klipptir út úr nýjasta tískublaði geta samt verið ljótir að innan: Spilltir, sjálfselskir, svikulir, lygnir, falskir og undirförulir. Það voru snyrtilega klæddir menn sem sátu að sumbli á bar í vinnutímanum og töluðu illa um samstarfsfólkið sitt. Þeir voru í jakka og með bindi þegar þeir sniðgengu fundarboð, þeir læðast meðfram veggjum og vona að fólkið sé fljótt að gleyma. Þeir taka ekki í mál að axla ábyrgð á eigin gerðum og segja af sér. Þeir stefna jafnvel að því að fara í mál við konu sem var svo hugrökk að segja frá.

Ég vil frekar fá menn á þing sem eru án bindis en í bindindi, eru edrú í vinnutímanum og vinna sitt starf í þágu þjóðarinnar án þess að ota sínum tota. Ég vil sjá alþingismenn sem sinna starfinu sínu af alúð og festu, þykir vænt um alla þjóðfélagshópa og sjá til þess að allir fái að njóta sín. Menn sem setja almannahagsmuni ofar sínum eigin hagsmunum eða vildarvina sinna.

Svona þingmenn myndu geisla af innri fegurð og væru sennilega vísir til þess að færa álit Alþingis á hærra plan. Þeir mættu mín vegna mæta til starfa klæddir í gamla kartöflupoka.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×