Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að það þurfi ekki að óttast að gengi krónu veikist samhliða væntanlegu frumvarpi ríkisstjórnarinnar um losun aflandskróna. „Við höfum feikilega mikið púður í tunnunni,“ segir hann og vísar til þess að gjaldeyrisvaraforðinn sé 770 milljarðar króna. Þetta kom fram á fundi þegar Már kynnti vaxtaákvörðun peningastefnunefndar í gærmorgun.
„Maran sem við höfðum áhyggjur af að myndi leggjast yfir gjaldeyrismarkaðinn,“ segir greiningardeild Arion banka, „ætti því ekki að halda vöku fyrir markaðnum á næstunni.“
Aflandskrónur eru metnar 84 milljarðar króna. Þar af eru 37 milljarðar króna bundnir á reikningum sem myndu losna þegar frumvarpið verður að lögum. Um 40 milljarðar eru í mislöngum ríkisbréfum og átta milljarðar í öðrum verðbréfum. „Ólíklegt er að þessir átta milljarðar fari á hraða siglingu strax,“ segir Már. „Það eru samtals 64 milljarðar króna sem gætu farið út á nokkrum vikum. Þótt það sé ekki víst.“
Hann segir að Seðlabankinn muni ekki láta þennan fortíðarvanda, það er útstreymi aflandskróna, sem hafi ekkert að gera með núverandi efnahagsstöðu, verða til þess að lækka gengi krónunnar. „Við munum beita gjaldeyrisinngripum eins og þarf til að það verði ekki raunin.“
Seðlabankastjóri og greiningardeild Arion banka telja að krónan hafi veikst of mikið í haust og að krónan eigi styrkingu inni. Seðlabankinn telur að raungengið hafi færst niður fyrir jafnvægisgildi sitt.
