Bára Halldórsdóttir uppljóstrarinn á Klausturbar hefur afhent skrifstofu Alþingis hljóðupptökurnar af samtali þingmannanna sex á barnum 20. nóvember síðastliðinn. Stundin greindi frá þessu í dag.
Í frétt Stundarinnar segir að forstöðumaður lagaskrifstofu Alþingis hafi óskað eftir gögnunum við miðlana þrjá sem höfðu upptökur Báru undir höndum, Stundina, DV og Kvennablaðið. Bára hafi ákveðið um helgina að afhenda hljóðupptökurnar sjálf svo að siðanefnd Alþingis gæti skoðað frumgögn.
Þórhallur Vilhjálmsson, forstöðumaður lagaskrifstofu Alþingis, staðfesti í samtali við RÚV að skrifstofan væri komin með upptökurnar. Á upptökunum má heyra samtal sex þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins þar sem farið var ófögrum orðum um þekkta einstaklinga í þjóðfélaginu. Tveir þingmenn Miðflokksins, þeir Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, tóku sér launalaust leyfi frá þingstörfum vegna málsins. Þá voru þingmennirnir Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason reknir úr Flokki fólksins vegna aðildar sinnar.
Forsætisnefnd ákvað í byrjun desember að vísa Klaustursmálinu til siðanefndar Alþingis. Í nefndinni sitja Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir formaður, Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, og Salvör Nordal, doktor í heimspeki og umboðsmaður barna. Þetta er í fyrsta sinn sem nefndin kemur saman frá því að hún var stofnuð í fyrra.

