Erlent

Að minnsta kosti 373 taldir af í Indónesíu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Eyðileggingin eftir flóðbylgjunnar er mikil.
Eyðileggingin eftir flóðbylgjunnar er mikil. vísir/getty
Yfirvöld í Indónesíu telja nú að að minnsta kosti 373 hafi látið lífið í landinu vegna flóðbylgjunnar sem skall á eyjunum Súmötru og Jövu á laugardag eftir virkni í eldfjallinu Anak Krakatau.

Talið er að virknin í fjallinu hafi sett af stað aurskriður neðansjávar sem á móti settu flóðbylgjuna af stað með skelfilegum afleiðingum. Hátt í 1500 manns slösuðust og nú er 128 einstaklinga saknað.

Íbúar á strandlengjum nálægt fjallinu hafa verið varaðir við því að vera á ströndinni þar sem hætta er á frekari flóðbylgjum. Eldgos hófst í Anak Krakatau á ný á sunnudag.  

Anak Krakatau er hluti af Krakatá-eyjaklasanum í Sundasundi sem liggur milli eyjanna Súmötru og Jövu.

Sundasund tengir einnig Jövuhaf við Indlandshaf. Eyjaklasinn er kenndur við eldfjallaeyjuna nafntoguðu Krakatá sem sprakk í eldgosi sem hófst í maí árið 1883.

Eldgosið 1883 hafði mikil áhrif á landslagið í Sundasundi en Krakatá sjálf gjöreyðilagðist í sprengingunni og aðrar eyjur tóku að myndast upp úr gosstöðvum í nágrenninu, þar á meðal Anak Krakatau sem á íslensku útleggst sem barn Krakatá.


Tengdar fréttir

Tala látinna hækkar enn í Indónesíu

Tala látinna hækkar enn í Indónesíu eftir eldgosið í Anak Krakatau um helgina en meira en 280 manns hafa fundist látnir. Þá eru meira en 1000 manns særðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×