Innlent

Innbrotsþjófar stálu jólagjöfum í Kópavogi

Birgir Olgeirsson skrifar
Talsverður erill hjá lögreglu í gærkvöldi og nótt.
Talsverður erill hjá lögreglu í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm
Eins og vanalega var talsvert að gera hjá lögreglu á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt nú þegar helgin er runnin í garð.

Á sjöunda tímanum í gærkvöldi var tilkynnt um innbrot í hús í Kópavogi. Þjófarnir höfðu farið inn um glugga og stolið jólapökkum og fleiri verðmætum.

Um svipað leyti var ölvaður maður handtekinn í hverfi 110 grunaður um húsbrot, líkamsárás, eignaspjöll, hótanir og fyrir að fara ekki að fyrirmælum lögreglu. Maðurinn var vistaður vegna rannsóknar málsins í fangageymslu lögreglu.

Á tíunda tímanum í gærkvöldi var ferðatösku stolið af ferðamanni en þjófurinn komst undan á hlaupum. Lögreglan fann ekki þjófinn þrátt fyrir leit.

Klukkan fimm í morgun ætluðu lögreglumenn að stöðva bifreið í Bríetartúni en ökumaðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu. Hófst þá eftirför þar sem bifreiðinni var ítrekað ekið yfir gatnamót mót rauðu ljósi. Bifreiðin var stöðvuð skömmu síðar, það er við gatnamót Kringlumýrarbrautar/Laugavegar. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur, ítrekaðan akstur gegn rauðu ljósi og fór ekki að fyrirmælum lögreglu.  Ökumaðurinn var vistaður fyrir rannsókn máls  í fangageymslu lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×