Erlent

Rannsaka myndband sem sýnir morðið á annarri konunni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Louisa Vesterager Jespers, 24 ára, og Maren Ueland, 28 ára, fundust myrtar í Marokkó á mánudagsmorgun.
Louisa Vesterager Jespers, 24 ára, og Maren Ueland, 28 ára, fundust myrtar í Marokkó á mánudagsmorgun. Myndir/Facebook
Norsk og dönsk lögregluyfirvöld hafa nú til rannsóknar myndband sem talið er sýna morðið á annarri norrænu kvennanna sem fundust myrtar í Atlasfjöllunum í Marokkó á mánudagsmorgun. Þá voru þrír menn handteknir vegna málsins í Marokkó í morgun.

Sjá einnig: Sá Maren síðast á lífi er leiðir þeirra skildu á Íslandi

Vegfarandi gekk fram á lík Marenar Ueland og Louisu Vesterager Jespersen í grennd við bæinn Imlil í Atlasfjallgarðinum í Marokkó á mánudagsmorgun. Áverkar eftir eggvopn fundust á hálsi þeirra. Þær stunduðu báðar nám við Háskólann í Þelamörk í Noregi og voru saman á mánaðarlöngu bakpokaferðalagi um Marokkó.

Dreift á samfélagsmiðlum

Greint var frá því í gær að myndband, sem talið er sýna morðið á a.m.k. annarri konunni, hefði farið í dreifingu á samfélagsmiðlum. Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur staðfesti á blaðamannafundi í morgun að lögregla í Danmörku hefði myndbandið til rannsóknar. Hvorki uppruni þess né lögmæti hafa þó fengist staðfest.

Norska öryggislögreglan Kripos hefur einnig rannsakað myndbandið, að því er fram kemur í frétt norska miðilsins TV2.

Lars Løkke á blaðamannafundinum í Kaupmannahöfn í morgun.AP/Philip Davali
Løkke sagði morðin á ungu konunum tveimur jafnframt „grimmileg“ og sagði dönsk yfirvöld taka málið afar alvarlega. Þá starfi danska lögreglan náið með yfirvöldum í Marokkó.

Þrír handteknir til viðbótar

Lögregla í Marokkó handtók í morgun þrjá menn til viðbótar í tengslum við málið, samkvæmt frétt norska ríkisútvarpsins NRK.  Lögregla birti í gær myndir af þremur eftirlýstum mönnum vegna morðanna en ekki er ljóst hvort þremenningarnir séu þeir sömu og handteknir voru í dag. Áður höfðu þrír menn verið handteknir í tengslum við málið en aðeins einn þeirra er enn í haldi lögreglu.

Í gær var greint frá því að morðin á Maren og Louisu beri þess öll merki að vera hryðjuverk, og séu skilgreind sem slíkt. Mennirnir sem grunaðir eru um verknaðinn eru taldir tengjast hryðjuverkasamtökum.


Tengdar fréttir

Gekk yfir Ísland áður en hún fór til Marokkó

Norska stúlkan, sem ásamt danskri stúlku var myrt í fjallgöngu í Marokkó í byrjun vikunnar, heimsótti Ísland fyrir aðeins fimm mánuðum og gekk þá yfir Sprengisand.

Sá Maren síðast á lífi er leiðir þeirra skildu á Íslandi

Ferðafélagi og vinur Marenar Ueland, norskrar konu á þrítugsaldri sem fannst myrt ásamt vinkonu sinni í Marokkó á mánudagsmorgun, lýsir síðasta ferðalagi þeirra saman í viðtali við norska dagblaðið Verdens Gang, VG.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×