Innlent

Ákærður fyrir að aka á nágranna sinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Ragnar Björgvinsson.
Ragnar Björgvinsson. Vísir

Héraðssaksóknari hefur ákært Ragnar Björgvinsson fyrir að aka á nágranna sinn Hreggvið Hermannsson í desember 2017. Samkvæmt ákærunni er Ragnari gert að hafa keyrt aftan á Hreggvið þar sem hann stóð í heimreiðinni að heimili Ragnars í Flóa, með þeim afleiðingum að Hreggviður endaði upp á húddi bílsins.

Hreggviður Hermannsson.

Í kjölfar þess er Ragnar sakaður um að hafa ekið aftur á Hreggvið með stöðugum hraða. Hreggviður er sagður hafa hörfað undan bílnum með hendur á húddinu þar til hann endaði aftur upp á bílnum. Þá á Ragnar að hafa ekið milli trjágróðurs og út á aðliggjandi tún, með Hreggvið á húddinu.



Það endaði með því að Hreggviður féll af bílnum og varð undir vinstra afturhjóli hans. Við það hlaut hann ýmis sár.



Saksóknari telur þetta varða við 2. málsgrein 218 greinar almennra hegningarlaga. Þar segir:

„Nú hlýst stórfellt líkams- eða heilsutjón af árás eða brot er sérstaklega hættulegt vegna þeirrar aðferðar, þ. á m. tækja, sem notuð eru, svo og þegar sá, er sætir líkamsárás, hlýtur bana af atlögu, og varðar brot þá fangelsi allt að 16 árum“

Um langvarandi deilur er að ræða og hafa nágrannarnir á Langholti 1 og Langholti 2 ítrekað deilt á undanförnum árum. Rætt var við þá Ragnar og Hreggvið í fréttum Stöðvar 2 árið 2014. Deilt er um landspildu, eftir makaskipti á tveimur jörðum árið 1987.



Sjá einnig: Segir nágranna hafa reynt að aka yfir sig á skurðgröfu



Hreggviður fer fram á eina og hálfa milljón króna, með vöxtum, í miskabætur og að Ragnari verði gert að greiða allan lögmannakostnað.

Heimreiðin sem um ræðir.Vísir/Google

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×