Handbolti

Gísli Þorgeir: Væri fáranlegt að hverfa frá því

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson var frábær er Ísland tryggði sér sæti í milliriðli eftir tveggja marka sigur á Makedóníu í Þýskalandi í dag.

Gísli kom inn í fyrri hálfleiknum og olli vandræðum með hraða sínum og krafti. Það sama var uppi á teningnum í síðari hálfleik og FH-ingurinn var eðlilega ánægður í leikslok.

„Þetta var geðveikt að ná markmiðum okkar. Þarna eigum við heima. Við eigum heima í topp tólf,“ sagði Gísli við Tómas Þór Þórðarson í leikslok.

„Mér fannst við oft á tíðum vera spila okkur í færi. Á sumum köflum þurftum við að fá meira flæði en mér fannst þegar uppi er staðið við fá fín færi og lykillinn var að ráðast á þetta á fullum krafti.“

„Við vissum að við værum í betri formi en þeir og að við þyrftum að keyra á þetta í 60 mínútur. Eins og þeir hafa verið að spila síðustu leiki hafa þeir verið að tapa síðasta hálftímanum því þeir eru ekki í nægilega góðu formi.“

Eins og áður segir átti Gísli afar góðan leik og var hann duglegur að ógna vörn Makedóníu. Hann segir að það skipti engu máli hverjum hann spili á móti; hann gerir bara sínar árasir.

„Nei, það væri fáranlegt að hverfa frá því. Ég held áfram mínu,“ sagði þessi nítján ára piltur kokhraustur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×